*

Tölvur & tækni 3. febrúar 2012

Fyrirtækjakaup komu Panasonic í klandur

Panasonic hefur sent frá sér afkomuviðvörun. Ef hrakspár ganga eftir verður síðasta ár það versta í sögu fyrirtækisins.

Síðasta ár var erfitt fyrir japanska tæknifyrirtækið og útlit fyrir að það tapi 780 milljörðum jena, jafnvirði rúmra 1.200 milljarða íslenskar króna. Jafn mikið tap hefur aldrei sést í sögubókum fyrirtækisins. Panasonic var stofnað árið 1918 og vantar því aðeins sex ár að það fagni aldarafmælinu.

Fram kemur í afkomuviðvörun Panasonic sem breska viðskiptablaðið gerir að umfjöllunarefni í dag, að nokkrir þættir skýri tapið. Þar á meðal er sterkt jen, sem hefur komið illa við fjölmörg japönsk útflutningsfyrirtæki, flóðin á Taílandi í fyrra og dýrkeypt endurskipulagning.

Rekstrarári Panasonic lýkur í lok mars. 

Á fyrra ári nam tap Panasonic 420 milljörðum jena og var vonast til að fyrirtækið kæmi út úr árinu með lítilsháttar hagnað í farteskinu. 

Kaupin á Sanyo reyndust klúður

Financial Times segir vandræði Panasonic eiga rætur að rekja til yfirtöku fyrirtækisins á tæknifyrirtækinu Sanyo fyrir þremur árum. Sanyo stóð framarlega á sviði rafhlöðuframleiðslu og sóttust stjórnendur Panasonic öðru fremur eftir þeim þætti fyrirtækisins. Fyrirtækið átti hins vegar við rekstra- og söluvanda að stríða auk þess sem fyrirtæki á borð við Samsung og LG hafa keyrt niður rafhlöðuverð. Það hefur komið Panasonic afar illa. Af þeim sökum mun Panasonic þurfa að afskrifa 250 milljarða jena af viðskiptavild sem til komin var vegna kaupanna á Sanyo og draga úr framleiðslu á sjónvörpum. 

Stikkorð: Panasonic