*

Hitt og þetta 14. janúar 2020

Fyrirtækjasmiðja Ungra frumkvöðla hefst

Halldór Benjamín frá SA, Ari Kristinn rektor HR, Magnús Scheving stofnandi Latabæjar ýta fyrirtækjasmiðjunni úr vör í dag.

Í dag, 14. janúar 2020, verður Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla 2020 formlega ýtt úr vör með kynningarviðburði í Háskólanum í Reykjavík. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins verður aðalræðumaður athafnarinnar.

Einnig munu taka til máls, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Magnús Scheving frumkvöðull og stofnandi Latabæjar og vinningshafar Fyrirtækjasmiðjunnar frá síðasta ári, stofnendur nemendafyrirtækisins Ró-Box frá Tækniskólanum.

Reiknað er með að um um 600 nemendur í um helmingi íslenskra framhaldsskóla muni taka þátt í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla 2020. Í verkefninu stofna nemendur sín eigin smáfyrirtæki og fá reynslu af frumkvöðlastarfi. Á vefsíðunni www.ungirfrumkvodlar.is, má finna frekari upplýsingar um verkefnið og þá skóla sem taka þátt í því ár.

Ungir frumkvöðlar (JA) er stærsti aðilinn sem veitir fræðslu um frumkvöðlastarf, atvinnulíf og fjármálalæsi í Evrópu. Við hvetjum og undirbúum ungt fólk til að ná árangri í efnahagslífinu á heimsvísu með því að tengja viðskiptalífið við menntastofnanir.

JA nær til meira en fjögurra milljóna nemenda í 41 landi í Evrópu á hverju ári. Ungir frumkvöðlar eru meðlimir í JA Worldwide.

Dagskráin er eftirfarandi:

  • 17:00 – 17:10      Ari Kristinn Jónsson, Rektor Háskólans í Reykjavík
  • 17:10 – 17:30      Halldór Benjamín Þorbergsson, Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins
  • 17:30 - 18:05       Magnús Scheving, Frumkvöðull og stofnandi Latabæjar
  • 18:05 – 18:20      Nemendur frá Tækniskólanum sem unnu Fyrirtækjasmiðjuna 2019 – Róbox teymið ; Ásþór, Gunnhildur, Hannes, Loki, Kristín 
  • 18:20 – 18:30       Jónína Þórdís Karlsdóttir, einn af stofnendum Bökk frá Verslunarskóla Íslands sem vann Fyrirtækjasmiðjuna 2018