*

Hitt og þetta 21. júní 2004

Fyrrum stjórnarformaður Vivendi í varðhaldi

Jean-Marie Messier, fyrrum stjórnarformaður risafjölmiðlasamsteypunnar Vivendi, var í dag hnepptur í gæsluvarðhald í tengslum við meint brot á lögum um verðbréfaviðskipti í Frakklandi. Handtaka Messier er mikið áfall fyrir franskt viðskiptalíf , ekki síst fyrir þær sakir að hann var eitt sinn tákn hins nútímavædda franska viðskiptajöfurs sem hafði það á forgangslista sínum að standa uppi í hárinu á bandarískum fjölmiðlasamsteypum.

Messier var neyddur til þess að segja af sér sem stjórnarformaður Vivendi fyrir tveimur árum eftir að stjórn félagsins komst að snoðir um mikil fjárhagsvandræði félagsins. Sú staða orsakaðist m.a. af því að félagið hafði keypt framhjá stjórninni eigin hlutabréf. Um tíma sat Messier í stjórn félaga eins og lúxsusvöruframleiðandans Moet-Hennessy Louis Vuitton og fjarskiptarisans Alcatel. Rannsókn franskra yfirvalda hófst í október 2002 eftir að hópur smærri hluthafa í Vivendi stefndi yfirstjórn félagsins fyrir að birta falska og misvísandi ársreikninga árin 2001 og 2002.

Eftirlitsaðilar á frönskum verðbréfamarkaði eiga ennþá eftir að birta niðurstöðu rannsóknar sinnar en bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) sektaði hins vegar Vivendi um 50 milljónir dollara síðla árs 2003. Samhliða sektinni var Messier meinað að sitja í stjórn fyrirtækis í Bandaríkjunum næstu 10 árin.

Rannsóknin nú beinist einkum að því að stjórnendur Vivendi hafi reynt með ólögmætum hætti að "ýta upp" verði hlutabréfa félagsins með því að standa fyrir endurkaupum á eigin bréfum sem markaðinum var ekki gert grein fyrir. Þá eru Messier og æðstu yfirmenn Vivendi sakaður um ólögleg innherjaviðskipti sem fólust í innlausn hlutabréfasamninga skömmu áður en ákveðið var að grípa til björgunaraðgerða með innspýtingu nýs hlutafjár að upphæð 3,3 milljörðum evra.

Messier er einnig sakaður um að hafa fyrirskipað endurkaup á hlutabréfum að upphæð 1,7 milljarði evra í því skyni að toga upp verð hlutabréfa félagsins - sem hafði stuttu áður keypt drykkjarframleiðslu- kvikmynda- og tónlistarfyrirtækið Seagram. Samtals er talið að Vivendi hafi varið um 10 milljörðum evra í kaupum á eigin hlutabréfum.

Lögfræðingur Messier, Oliver Metzner, segir að hringt hafi verið í frönsku kauphöllina í sínum tíma sem hafi gefið leyfi fyrir endurkaupunum. Þá hafi Michel Prada þáverandi yfirmaður kauphallarinn skrifað bréf þess eðlis að kauphöllin myndi ekkert aðhafast vegna endurkaupa bréfa Vivendi. Gæsluvarðhald yfir Messier er talið munu standa í a.m.k. tvo sólarhringa.