*

Heilsa 2. mars 2015

Fyrst kvenna formaður hjólreiðafélags

Lilja Birgisdóttir, verkefnastjóri hjá Sjóvá, tók við sem formaður hjólreiðafélagsins Tinds síðasta haust.

Fátt er mikilvægara en að setja sér skýr markmið til að ná árangri í lífinu. Eftir vinnu leitaði á náðir nokkurra stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum til að komast á snoðir um hver markmið þeirra eru og hvað þeir gera til að framfylgja þeim.

„Í október 2014 varð ég formaður hjólreiðafélagsins Tinds, fyrst kvenna til að verða formaður hjólreiðafélags. Markmið mín fyrir 2015 snúa því að miklu leyti um að það starf sem þar fer fram,“ segir Lilja Birgisdóttir, verkefnastjóri hjá Sjóvá, aðspurð um hver séu markmið hennar.

„Markmið okkar hjá Tindi er að efla hjólreiðar sem keppnisíþrótt og stuðla að aukinni uppbyggingu hjá ungu fólki sem hefur áhuga á hjólreiðum. Við leggjum áherslu á að bæði keppnisfólk og þeir sem hjóla sér til skemmtunar geti fundið eitthvað við sitt hæfi hjá félginu. Áhersla hefur verið lögð á að auka þátttöku kvenna í sportinu og hefur það gengið vonum framar og hvort sem það er á björtum sumardögum eða í hressandi vetrarveðri er fullt af konum sem koma og hjóla á Tinds æfingum sem er ánægjulegt. Ásamt því að halda nokkur skemmtileg hjólamót með fólkinu hjá Tindi ætla ég að hjóla hringinn í kringum landið með sjö öðrum skemmtilegum stelpum í WOW cyclothon í júní.“

Spjallað er við fleiri stjórnendur í Eftir vinnu, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.