*

Hitt og þetta 24. október 2019

Fyrstu 5 stjörnu hótelin

The Retreat Bláa Lónsins er nú 5 stjörnu superior hótel og Hótel Grímsborgir fimm stjörnu hótel.

Í fyrsta skipti hafa Íslensk hótel nú hlotið fimm stjörnu flokkun samkvæmt viðurkenndu hótelflokkunarkerfi. The Retreat Bláa Lónsins, fær fimm stjörnur í svokölluðum superior-flokki og Hótel Grímsborgir í Grímsnesi er nú flokkað sem fimm stjörnu hótel. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ferðamálastofu.

Hótelin eru vottuð samkvæmt gæðakerfi Vakans en það er eina viðurkennda hótelflokkunarkerfið hérlendis. Samkvæmt reglugerð um gististaði er óheimilt að auðkenna sig með stjörnum eða öðrum merkjum sem gefa til kynna hvers konar gæðaflokkun nema að undangenginni formlegri gæðaúttekt þriðja aðila sem viðurkennd er af stjórnvöldum. Gæðaviðmið Vakans fyrir hótel byggja á viðmiðum Hotelstars Union, hotelstars.eu samkvæmt nýju fyrirkomulagi sem tók gildi í byrjun árs 2019.

Hótel fá ákveðinn fjölda stiga fyrir uppfylla hin ýmsu gæðaviðmið en hér sést hversu mörg stig þarf til komast í hvern flokk:

  • Fimm stjörnu superior = 495 stig
  • Fimm stjörnu hótel = 435 stig
  • Fjögurra stjörnu superior = 435 stig
  • Fjögurra stjörnu hótel = 290 stig
  • Þriggja stjörnu superior = 290 stig
  • Þriggja stjörnu hótel = 190 stig

Hægt er að nálgast frekar upplýsingar um flokkunina og gæðaviðmiðin hér.

The Retreat Hotel Bláa Lónsins, sem er í efsta flokki eða fimm stjörnu superior, opnaði 1. apríl 2018 og hefur síðan þá fengið fjölda verðlauna. Hótelið býður upp á einkalón fyrir gestina sína.

Hótel Grímsborgir, sem er nú fimm stjörnu hótel eins og áður sagði, er með gistipláss fyrir allt að 240 gesti, staðsett í Grímsnesi við Gullna Hringinn í kjarri vöxnu landi á bökkum Sogsins. Hótelið býður upp á gistingu í 68 superior herbergjum, 7 svítum, 5 stúdíóíbúðum og 7 stærri íbúðum með 4 svefnherbergjum hver sem rúma allt að 8 manns.

Á heimasíðu Vakans má finna nánari upplýsingar um gæðakerfið og lista yfir þau hótel og gististaði sem uppfylla kröfur til að merkja sig stjörnugjöf.