*

Ferðalög & útivist 7. nóvember 2019

Fyrsta farrými á hverfandi hveli

Stjórnendur kjósa að fljúga á viðskiptafarrými á meðan auðstéttin flýgur um á einkaþotum.

Dubai er stundum sagt vera „Disneyland fyrir hina ríku“. Á flugvelli borgríkisins í miðri sandauðninni eru hinir ríku boðnir velkomnir í einum af þremur glæstum biðsölum Emirates, flagg-flugfélags hins Sameinaða arabíska furstadæmi, fyrir farþega á fyrsta farrými. Hver salur er byggður til þess að rúma þúsundir farþega, en á hverjum degi dvelja þar aðeins hundrað eða svo farþegar að jafnaði. 

Í stað rándýra skyndibitamatarins sem almenningi býðst geta hinir ríku gætt sér á fríu kampavíni og kavíar á meðan þeir velja á milli fjölda fyrsta flokks veitingastaða. Það eru engar Philip Morris sígarettur eða Beefeater gin í fríhöfn hinna ríku heldur Bulgari hálsfestar og whisky flöskur sem kosta eina milljón króna. Biðsalirnir glæstu eru svo stórir að móttökustjórinn viðurkennir fyrir blaðamanni Economist að algengustu viðbrögð gesta, sem stíga þar inn í fyrsta sinn, er spurningin, „Ó, ja hérna, hvar er biðsalurinn?“. 

Innlit blaðamannsins inn í ferðaveröld hinna ríku er tilefni greinar sem birtist í tímaritinu á dögunum. Hinir hundruð stóla sem standa auðir í glæstum biðsölum flugvallarins í Dubai eru til marks um að eitthvað undarlegt sé á seyði. Flugfélög eru í æ ríkari mæli hætt að bjóða farmiða á fyrsta farrými. Meira að segja Emirates, sem selur fleiri slíka miða en nokkurt annað flugfélag í heimi, hefur minnkað mjög framboð á sætum á fyrsta farrými. 

Minna framboð fyrsta farrýmissæta skýtur að mörgu leyti skökku við. Fyrir það fyrsta hefur aðbúnaður aldrei verið betri en nú, til dæmis geta farþegar á fyrsta farrými í A380 farþegaþotum Emirates farið í sturtu í miðju flugi. Þá hefur ríku fólki fjölgað mjög mikið undanfarna tvo áratugi. Tímaritið Forbes áætlar að fjöldi milljónamæringa hafi meira en tvöfaldast á tímabilinu og telji nú 2.100 einstaklinga.  Loks hafi önnur ferðaþjónusta fyrir hina vellauðugu blómstrað og áætlar greininga- og ráðgjafafyrirtækið Richard Clarke of Bernstein að fjöld lúxus-hótela muni fjölga um 168% næsta áratuginn. 

Engu að síður telja margir greinendur að fyrsta farrými kunni að hverfa alfarið innan tíðar, en í Bandaríkjunum er það gott sem úr sögunni nú þegar. 

Þegar farþegaflug var að slíta barnsskónum á árunum eftir Síðari heimsstyrjöldina þá var aðeins eitt farrými í boði. Almennt farrými var kynnt til sögunnar á sjötta áratugnum og á áttunda áratuginum var boðið í fyrsta sinn á viðskiptafarrými (e. business class). Á tíunda áratugnum var svo boðið upp á aðalfarrými (e. premium economy) sem átt að brúa bilið milli viðskiptafarrýmis og kjötgripafarrýmis (e cattle class)    

Ein helsta ástæðan fyrir hnignun fyrsta farrýmis er í umfjöllun Economist sögð vera sókn einkaþotunnar. Kostnaður hafi lækkað mjög mikið og nú sé einkaþota ekki einungis í boði fyrir hina vellauðugu heldur sé nú raunverulegur valkostur fyrir sterkefnaða einstaklinga. 

Stjórnendur alþjóðlegra stórfyrirtækja fagna sjálfsagt þessari þróun en áhrif ferðamátans á umhverfið er hins vegar ekkert gleðiefni. Kolefnisfótspor hvers farþega í einkaþotu er á bilinu þrisvar til sex sinnum stærra en farþega á fyrsta farrými í farþegaþotu og um 12 sinnum stærra en farþega á almennu farrými. Tölurnar eru miklu verri þegar miðað er við nýja kynslóð af hljóðfráum einkaþotum (e. supersonic jets) en kolefnisfótspor þeirra er fimm til sex sinnum stærra en venjulegra einkaþotna. 

Stikkorð: Ferðalög  • lúxus