*

Matur og vín 3. nóvember 2015

Fyrsta íslenska barnamatarlínan senn á markað

Rakel Garðarsdóttir og Hrefna Sætran hafa þróað barnamatarlínu úr alíslensku hráefni.

Ásta Andrésdóttir

Rakel Garðarsdóttir hefur, ásamt meistarakokkinum Hrefnu Sætran, þróað línu af niðursoðnum ungbarnamat. Um er að ræða nýjung á íslenskum markaði. „Línan er tilbúin og kemur á markað í byrjun næsta árs. Í hana fer eingöngu íslenskt hráefni: grænmeti, vatn, bygg og kalkúnn. Við ætlum að þróa og stækka vörulínuna og stefnum með hana á erlenda markaði. Það er svo klikkað að vera að flytja inn krukkumat; það er alls ekki umhverfisvænt. Mig langar að íslensk börn geti fengið að njóta fæðu úr íslensku hráefni.“

Rakel er stofnandi og aðaldriffjöður samtakanna Vakandi sem stofnuð voru í ársbyrjun 2014. Barnamatarlínan mun koma út undir merkjum þeirra. Markmið Vakandi er að berjast gegn hvers kyns sóun, hvort sem það eru matvæli, fatnaður eða annað. 

Vakandi hefur vaxið ört fiskur um hrygg og er nú kominn undir væng Sameinuðu þjóðanna. Heimildarmyndin UseLess er einnig í bígerð en þar verður bent á jákvæðar og einfaldar lausnir til að sporna gegn sóun í þágu umhverfisins. 

„Þeir sem eru vakandi eru meðlimir í Vakandi,“ segir Rakel. „En auðvitað vinn ég með alls konar fólki að verkefnum. Við starfrækjum líka Facebook­síðu þar sem málin eru rædd og bent er á fólk sem er að gera góða eða slæma hluti. Ég hef trú á að flestir vilji leggja sitt af mörkum; það þarf bara að leiðbeina og finna nýjar lausnir. Þetta er langhlaup en vonandi förum við að sjá miklu meiri breytingar.“

Rakel Garðarsdóttir er í ítarlegu viðtali í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem er nýkomið út. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.