*

Menning & listir 4. nóvember 2015

Fyrsta íslenska flugeldadansverkið frumsýnt

Íslenski dansflokkurinn frumsýnir á morgun nýtt verk þar sem sviðsflugeldar leika lykilhlutverk.

Ásta Andrésdóttir

Þann 5. nóvember frumsýnir Íslenski dansflokkurinn á stóra sviði Borgarleikhússins verkið Kafla 2: og himinninn kristallast. Sérstakir sviðsflugeldar leika þar stórt hlutverk og verður skotstjóri á svæðinu.

Höfundur verksins er Sigga Soffía en hún hefur hannað flugeldasýningar menningarnætur síðastliðin þrjú ár. Og himinninn kristallast er endursköpun á flugeldasýningunni Stjörnubrim sem flutt var á Menningarnótt 2015. 

Við gerð síðustu þriggja flugeldasýninga á menningarnóttum Reykjavíkur var áhorfendum sýnt að sömu reglur gilda um uppbyggingu á dansverki og flugeldasýningu. Nú geta áhorfendur séð það með eigin augum þegar sama verkið, unnið út frá sömu formúlunum, verður flutt af dönsurum Íslenska dansflokksins með aðstoð stórfenglegra ljósa, glæsilegra búninga og sviðsflugelda.

Sigga Soffía vinnur hér að nýju með Hildi Yeoman fatahönnuði og Helga Má Kristinssyni listamanni en þau skipuðu listrænt teymi sýningarinnar Svartar Fjaðrir sem var opnunarsviðsverk Listahátíðar í Reykjavík 2015. Fyrir störf sín þar Sigga Soffía tilnefnd til Grímunnar 2015 sem Sproti ársins og Hildur Yeoman var tilnefnd til Grímunnar 2015 í flokkinum Búningar ársins.