*

Bílar 23. ágúst 2014

Fyrsti 4x4 tvíorkubíllinn

Outlander er með talsvert klassískum jepplingalínum en skákar ekki keppinautum í sportlegum áherslum

Mitsubishi Outlander er nú í fyrsta sinn í boði með raf/bensíndrifinni aflrás í svokallaðri PHEV-útfærslu (Plug in Hybrid Electric Vehicle). Outlander PHEV er eini bíllinn í þessum stærðar- og gerðarflokki með þessum eiginleikum og nýtur því þess að vera einstæður – enn sem komið er. Líklegt er að aðrir framleiðendur bjóði bíla þessarar gerðar því kostirnir eru ótvíræðir.

Klassískt útlit

Outlander er með talsvert klassískum jepplingalínum en skákar ekki keppinautum í rennileika eða sportlegum áhersluatriðum. En þetta virkar vel smíðaður bíll og í PHEV Intense+-útfærslunni er um vel búið ökutæki að ræða. Hurðaopnanir og allt aðgengi að bílnum er til fyrirmyndar. Það dugar að vera með lykilinn í vasanum eða veskinu og þrýsta á lítinn hnapp á hurðarhandfanginu til að aflæsa eða læsa bílnum. Það er mikill þægindaauki að þessu, ekki síst þegar komið er úr innkaupaferð með fangið fullt af vörum. Þegar bílnum er læst falla hliðarspeglarnir sjálfkrafa að hliðum bílsins.

Afturhlerinn er með rafstýrðri opnun og plássið þar er meira en vænta mátti því þar undir er fyrirferðarmikill búnaður sem tengist rafaflrásinni. Undir farangursrýmisgólfinu eru kaplartil að hlaða bílinn þegar þess þarf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.