*

Bílar 14. febrúar 2021

Fyrsti alrafknúni Lexusinn

Lexus UX 300e er með 54 kW rafhlöðu sem skilar 204 hestöflum eða 150 kílóvatta afli. Bíllinn er 7,5 sekúndur í hundraðið.

Róbert Róbertsson

Lexus, sem er lúxusmerki Toyota, hefur verið þekkt fyrir Hybrid bíla sína. Lexus UX kom á markað sem slíkur fyrir tveimur árum og bættist þar með í hóp stærri bræðranna NX og RX í sport-jeppaflokknum hjá Lexus.

Í meira en 15 ár hefur Lexus búið til tækni og nýjungar á borð við tveggja þrepa niðurfærslugírinn og fjölþrepa Hybrid kerfið, sem sett hafa ákveðin viðmið. Nú loksins tekur Lexus fullt skref í alrafknúinn bíl og hann kemur prýðilega út.

Rúmlega 300 km drægni

Lexus UX 300e er með 54 kW rafhlöðu sem skilar 204 hestöflum eða 150 kílóvatta afli. Togið er 300 Nm og það finnst í akstrinum að þessi netti sportjeppi er með prýðilegt afl. Bíllinn er 7,5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið.

Aksturseiginleikarnir eru mjög góðir og minna raunar meira á fólksbíl en sportjeppa. Bíllinn er lipur og mjúkur í akstri og góður í beygjum. Fjöðrunin er fín og bíllinn liggur vel á veginum og þegar tekið er aðeins á honum í beygjum.

Hægt er að velja um akstursstillingar (Drive Mode Select) allt frá Eco til Sport S+ allt eftir því hvernig maður vill hafa aksturslagið. Það er alltaf skemmtilegt að geta skipt á milli kerfa eftir því í hvernig stuði maður er í. Það heyrist ekkert í rafmótornum og veghljóð er lítið sem ekkert.

Drægnin á rafhlöðunni er um 305-315 samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda. Það tekur um 50 mínútur að hlaða rafhlöðuna allt að 80% í hraðhleðslustöð en í heimahleðslu tekur um 8 klukkustundir að ná fullri hleðslu.

Plássið er prýðilegt fyrir ökumann og farþega frammí og sæmilegt afturí en þrengir talsvert af ef þar sitja þrír fullorðnir. Aukið hefur verið við skottpláss í þessari útfærslu á bílnum sem er hið besta mál enda er þessi bíll kjörinn til ferðalaga og útivistar sem og undir áhugamálin og því fínt að hafa got pláss í skottinu fyrir farangur.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér