*

Bílar 26. september 2020

Fyrsti alrafknúni sportjeppi Volkswagen

Volkswagen ID.4 var frumsýndur í vikunni með stafrænum hætti á heimsvísu.

Róbert Róbertsson

ID.4 er rúmgóður, sveigjanlegur og býr yfir öllum þeim þægindum sem viðskiptavinir kunna að meta. Drægni bílsins er allt að 520 km samkvæmt WLTP-staðlinum. Rafhlaðan er staðsett fyrir neðan farþegarýmið sem tryggir lágan þyngdarpunkt ökutækisins. Rafmótorinn, sem er staðsettur á afturásnum, skilar bílnum 204 hestöflum sem er nóg til að fara úr kyrrstöðu í hundraðið á 8,5 sekúndum. Hámrkshraðinn er 160 km/klst. Þökk sé sterku gripi afturhjóladrifsins og 21 sentímetra veghæð er ID.4 liðtækur í léttum torfærum.

Ytra útlit ID.4 er sportlegt og einstaklega nútímalegt. Skýr og flæðandi hönnun er innblásin af náttúrunni og tryggir mjög góða lofthreyfifræði með loftviðnámsstuðulinn 0,28. Grunnútgáfa bílsins kemur með aðalljósum sem eru næstum fullbúin með ljósdíóðum og afturljósin nýta alfarið LED tæknina. Best búna útgáfan af ID.4 býr yfir gagnvirku IQ.Light LED ljósakerfi sem er enn framsæknara: það tekur á móti ökumönnum með snúningslinsueiningum og býr til hágeisla sem stjórnað er af gervigreind. Þessi aðalljós hafa verið pöruð saman við nýju þrívíðu LED afturljósaklasana sem eru eldrauð á lit.

Stjórnbúnaður ID.4 er byggður á tveimur birtingarmyndum. Annars vegar skjá sem mælist allt að 12 tommur og er með snertivirkni og hins vegar á náttúrulegri raddstýringu sem nefnist Hello ID.

Nýi snjallljósabúnaðurinn ID.Light - mjó ljósrönd undir framrúðunni – veitir ökumanni stuðning við akstur. Sjónlínuskjár er í boði þar sem hægt er að blanda miklu úrvali skjámynda við raunveruleikann. Til að mynda getur leiðsöguörvum, sem leiðbeina ökumanni hvar hann á að beygja, verið varpað á yfirborð vegarins á nákvæmlega réttri akrein. Leiðsögukerfið Discover Pro sér svo um að koma We Connect Start netþjónustunni um borð. IQ. Drive aðstoðarkerfin gera aksturinn enn afslappaðri og það á sérstaklega við um Travel Assist kerfið.

Stikkorð: Volkswagen  • ID.4