*

Bílar 8. september 2020

Fyrsti hreini rafbíll Mazda

Forpantanir á Mazda MX-30 hafnar hjá Brimborg, en fyrstu eintökin koma til landsins í október og til afhendingar í lok árs.

Mazda MX-30, fyrsti 100% hreini rafbíll Mazda, er nú á leiðinni til Íslands. Forpöntun á Mazda MX-30 hófst í Vefsýningarsal Brimborgar á miðnætti 4. september.

Bílar hins japanska bílaframleiðanda Mazda hafa notið vinsælda á Íslandi í áratugi sökum gæða og einstakra aksturseiginleika og nú kemur sá fyrsti sem er eingöngu knúinn rafmagni. Sýningar- og reynsluakstursbílar koma til Íslands í október og afhendingar til viðskiptavina hefjast í lok árs.

Mazda bílar eru þekktir fyrir ríkulegan staðalbúnað og þar er nýi rafbíllinn MX-30 enginn undantekning. Í SKY grunnbúnaði MX-30 er að finna bakkmyndavél, fjarlægðarstillanlegan hraðastilli (Mazda Radar Cruise Control), GPS vegaleiðsögn ásamt umferðaskiltalesara, öflug hljómtæki, 8,8“ skjá, Mazda Connect með USB tengingu fyrir Android Auto eða Apple Car Play.

Bíllinn léttur til að draga úr rafmagnsnotkun

Við hönnun Mazda MX-30 var lögð áhersla að minnka mengunarfótspor bílsins í heild þ.e. heildarmengun bílsins frá framleiðslu til förgunar (Life Cycle Assesement). Þá er horft til umhverfisvænna aðfanga og framleiðsluferla, notkunar bílsins á líftíma hans og að lokum förgunar. Hluti af þessari vegferð er að létta bílinn sem dregur úr notkun aðfanga.

Léttari bíll með léttari drifrafhlöðu lækkar rafmagnsnotkun í akstri (orkueyðsla) og raundrægni verður sem næst mældri drægni, aksturseiginleikar verða betri og förgunarkostnaður í lokin lágmarkaður. Með þessari nálgun er hleðslutími drifrafhlöðunnar einnig lágmarkaður og hún tekur ekkert af farangursrými bílsins sem eykur notagildi hans.

Með 35,5 kWh drifrafhlöðunni er drægni bílsins 265 km. og blönduð drægni með langkeyrslu 200 km. skv. WLTP mælingum. Létt drifrafhlaðan er eldsnögg í hleðslu og skilar framúrskarandi drægni fyrir bæjarsnattið.

36 mínútur að hlaða úr 20% í 80% drægni

Mazda MX-30 100% rafbíll er með 6,6 kW 16A hleðslustýringu og í einfasa 7,4 kW hleðslustöð (AC) heima eða í vinnu er hægt að hlaða úr 20% í 80% drægni á rúmum 3klst. Tóma drifrafhlöðu má síðan fullhlaða yfir nótt á 5 klst. Fyrir lengri ferðir út á land þarf að bæta á rafmagni og í algengustu hraðhleðslustöðvum (DC) á Íslandi, 50 kW, tekur aðeins 36 mínútur að hlaða úr 20% í 80% drægni.

Bíllinn er búinn varmadælu sem er mikilvægur búnaður í rafbílum, sérstaklega á Íslandi því hún vinnur best frá 5 gráðum undir frostmarki og til 15 gráðu hita og er staðalbúnaður í Mazda MX-30 á Íslandi. Varmadæla endurnýtir orku úr umhverfinu fyrir bæði miðstöð og drifrafhlöðu bílsins sem gerir kleift að að spara orku drifrafhlöðunnar við hitun eða kælingu bílsins.

Stikkorð: Mazda  • bílar  • rafbíll