*

Bílar 8. júlí 2014

Fyrsti Porsche Panamera tvinnbíllinn mættur

Aka má fyrsta Porsche Panamera E-Hybrid bílnum á allt að 140 km hraða eingöngu á rafmagni.

Róbert Róbertsson

Fyrsti Porsche Panamera E-Hybrid bíllinn er kominn til landsins. Þetta er jafnframt fyrsti tvinnbíllinn sem þyski lúxus- og sportbílaframleiðandinn framleiðir. Bíllinn kostar 16.900.000 kr. hjá Bílabúð Benna.

Eldsneytiseyðslan er aðeins 3,1 lítrar á hverja hundrað kílómetra þrátt fyrir ógnarkraft. Stinga má lúxusbílnum í samband við rafmagn og fullhlaða hann á tveimur og hálfum klukkutíma. Í upplýsingum frá framleiðanda kemur fram að bíllinn komist allt að 30 km á rafmagninu einu við bestu mögulegu aðstæður. Að auki má aka honum á allt að 140 km hraða eingöngu á rafmagni.

Porsche Panamera E-Hybrid er með 416 hestöfl og koma 333 þeirra frá þriggja lítra V6 bensínvél en afgangurinn frá rafmótorunum. Bíllinn er aðeins 5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Ekkert er slegið af lúxusnum frekar en venjulega á þessum bænum og hönnunin flott að innan sem utan. Porsche er alveg með þetta!

Stikkorð: Porsche  • Porsche Panamera