*

Bílar 13. febrúar 2020

Fyrsti rafbíll Lexus

Lúxusbílamerki Toyota kemur með fyrsta hreina rafbílinn í vor en hingað til hefur framleiðandinn lagt áherslu á hybrid bíla.

Þáttaskil verða hjá Lexus, lúxusbílamerki Toyota, nú í vor þegar rafbíll kemur fram á sjónarsviðið frá framleiðandanum. Um er að ræða sportjeppann netta Lexus UX 300e. Lexus UX 300e verður fyrsti rafbíll Lexus en hingað til hefur Toyota og Lexus verið fremst í flokki í þróun tvinnbíla eða svokallaðra Hybrid bíla.

UX sportjeppinn kom á markað í fyrra með Hybrid tækninni og er hann nýjasti meðlimur Lexus fjölskyldunnar. Hann svipar mjög til stærri bræðranna NX og RX í útliti með snældulaga grillinu að framan og sportlegu útliti sem er hvort tveggja nokkuð einkennandi fyrir Lexus bílanna.

Háþróaður rafmótor skilar Lexus UX 300e alls 204 hestöflum eða 150 kW og 300 Nm togi nánast tafarlaust. Litíumjóna 54,3 kílóvattstunda rafhlaða Lexus UX 300e felur í sér 380  kílómetra drægi. Þessi fyrsti rafbíll Lexus  nær hundraðinu úr kyrrstöðu á 7,5 sekúndum. Hámarkshraði bílsins nemur 160 km/klst og vitskuld losar bíllinn ekkert gróðurhúsaloft í akstri.

UX 300e er vel útbúinn nýjustu aksturs- og öryggiskerfum og má þar nefna Lexus Safety System + sem inniheldur árekstrarviðvörunarkerfi og umferðarskiltaaðstoð sem greinir umferðarskilti; og ratsjárhraðastilli.

Stikkorð: Toyota  • Lexus  • Hybrid  • rafbíll