*

Bílar 8. júlí 2013

Fyrsti rafbíllinn frá BMW

BMW kynnir bráðlega nýjan bíl sem verður að mestu úr áli og koltrefjum.

Róbert Róbertsson

BMW kynnir fyrsta rafbílinn síðar í þessum mánuði. Bíllinn ber heitið i3. Fyrstu myndir af bílnum náðust á dögunum en þá var hann enn í felulitunum. Þær sýna að bíllinn verður svipaður að stærð og BMW 1-línan en á mjórri hjólbörðum en venjan er.

BMW i3 mun hafa ökudrægi upp á 130 til 160 km ef ekið er eingöngu á rafmagni samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda.. Ef ökumaður velur Eco stillingu kemst bíllinn að meðaltali tæpum 20 km lengra á hleðslunni og 40 km lengra velji hann Eco + stillingu. Bíllinn verður einnig í boði með 650 rsm, tveggja strokka bensínmótor sem hannaður er fyrir BMW mótorhjól. Með honum mun ökudrægið aukast enn frekar. BMW i3 verður að stærstum hluta úr áli og koltrefjaefnum sem dregur verulega úr þyngd hans.

Bæverski lúxusbílaframleiðandinn býst við að bíllinn komi á markað í nóvember nk. og áætlar að selja um 30.000 i3 bíla frá og með árinu 2014. Bíllinn verður nokkuð dýr ef marka má heimildir innan BMW samsteypunnar en þær benda til að i3 muni kosta jafnmikið og vel útbúinn bíll úr 3-línunni sem er nokkuð stærri.

BMW i3 verður frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt í september nk.

Stikkorð: BMW  • BMW i3