*

Bílar 26. apríl 2019

Fyrsti rafbíllinn frá Honda

Honda Urban er fyrsti bíll japanska bílaframleiðandans sem knúinn er rafhlöðu eingöngu og verður seldur í Evrópu.

Honda Urban er fyrsti bíll japanska bílaframleiðandans sem knúinn er rafhlöðu eingöngu og verður seldur í Evrópu.

Urban var fyrst kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Frankfurt árið 2017 en kom aftur fram á sjónarsviðið á  bílasýningunni í Genf á dögunum og þá mun nær því sem hann mun líta út þegar hann fer í framleiðslu. Bíllinn mun fara í sölu snemma árs 2020 samkævmt upplýsingum frá Honda.

Þetta er fjögurra dyra bíll og eru handföngin á afturhurðunum falin, eins og reyndar speglarnir líka sem eru í raun og veru myndavélar. Hringlaga díóðuljósin gefa bílnum sérstakan svip. Mælaborðið er með stórum flatskjá. Honda hefur ekki látið mikið af tæknuupplýsingum frá sér um þennan skemmtilega bíl sem minnir mest á fyrstu kynslóðir Honda Civic. Ekki hefur enn verið gefið upp hversu langdrægur hann verður á rafmagninu en þó er búistvið að hleðslan dugi honum allavega 250 km.

Fullbúin framleiðsluútgáfa verður væntanlega frumsýnd á bílasýningunni í Frankfurt í september. Honda tilkynnti á síðasta ári að fyrirtækið búist við því að selja um 5.000 eintök af þessum bíl á ári. Honda tilkynnti einnig að tveir þriðju af bílasölu þeirra í Evrópu verði rafmagnsbílar árið 2025.

Stikkorð: Honda  • Urban