*

Bílar 12. janúar 2022

Fyrsti rafknúni bíll Subaru

Subaru Solterra, nýr rafknúinn jepplingur með aldrifi, er væntanlegur til Íslands í sumar. Þetta er fyrsti rafknúni bíllinn frá Subaru.

Róbert Róbertsson

Nýr rafknúinn jepplingur með aldrifi, Subaru Solterra, er væntanlegur til landsins í sumar. Þetta er fyrsti hreini rafknúni bíllinn frá japanska bílaframleiðandanum Subaru.

Subaru Solterra er fimm manna rúmgóður jepplingur á nýjum undirvagni, sem búinn er tveimur 80 kW rafmótorum, einum við hvorn öxul, sem saman skila 218 hestöflum, 335 Nm togi og hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst á 7,6 sekúndum. Rafhlaða bílsins, sem liggur lárétt neðst í undirvagninum er 71 kWh sem gerir kleift að aka Solterra allt að 415 kílómetra á hleðslunni.

Solterra hefur sömu góðu aksturseiginleikana og Subaru er hvað þekktastur fyrir sem bílaframleiðandi vegna lágs þyngdarpunkts og hvikaði Subaru hvergi frá þeim kröfum við hönnun rafbílsins.

Solterra er m.a. búinn aukageymslurými undir húddhlífinni og í farþegarýminu er uppréttur 12,3 tommu miðlægur snertiskjár í framanverðum miðjustokkinum milli famsætanna, þar sem helstu stjórntakka er einnig að finna innan seilingar frá ökumanni.

Þá er Solterra ennfremur í boði með vönduðu hljóðkerfi frá Harman Kardon auk þakglugga svo nokkuð sé nefnt. Forsala á jepplingnum er þegar hafin hjá BL, þar sem grunnútgáfan kostar frá 6.990 þúsundum króna.

Stikkorð: Subaru  • rafbílar  • Subaru Solterra