*

Bílar 7. desember 2019

Fyrsti rafsportbíll Porsche

Porsche Taycan hinn nýi rafsportbíll þýska sportbílaframleiðandans, var frumsýndur á bílasýningunni í Frankfurt.

Róbert Róbertsson

Taycan er gríðarlega öflugur rafbíll og kemur ekki á óvart enda er þýski sportbílaframleiðandinn ekki þekktur fyrir annað en hraðskreiða bíla. Taycan Turbo er 670 hestafla bíll og skýst í hundraðið á þremur sekúndum sléttum.

Ofurútgáfan Taycan S er enn aflmeiri, alls 750 hestafla og fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 2,6 sekúndum. Hámarkshraði Taycan er alls 260 km á klst. Áætluð meðaleyðsla bílsins er 26,9 kílówattsstundir á hverja 100 km og hámarks hleðslustraumur er 270 kW. Það er hægt að hlaða bílinn upp í 80% hleðslu á aðeins rúmum 22 mínútum samkvæmt upplýsingum frá Porsche.

Taycan notar 800 volta rafkerfi sem gefur honum meira afl við allar aðstæður, styttir hleðslutíma og léttir bílinn. Þetta 800 volta rafkerfi aðgreinir hann frá öðrum rafbílum. Auk þess er hann, ólíkt öðrum rafbílum, með tveggja gíra sjálfskiptingu sem gerir aðallega tvennt, gefur honum meira afl í upptakinu og meiri hraða í framhaldinu.

Fjölmargar forpantanir

Að sögn forsvarsmanna Porsche var yfirlýst markmið þeirra við þróun Taycan að koma með 100% rafmagnsbíl með eiginleikum sem sköruðu fram úr öllum þeim sem voru í boði á markaðnum.

Að sögn Thomasar Gregers, sölustjóra Porsche á Íslandi, er Taycan sönnun þess að Porsche DNA-ið hefur verið tekið inn á nýja rafmagnaða braut, sem byggir á einstakri tækni. Hann segir viðtökurnar á heimsvísu hafi farið fram úr öllum plönum framleiðenda, en nýlega opnaði Porsche á Íslandi fyrir þann möguleika að forpanta Taycan til Íslands. „Bílablaðamenn hafa hrósað Taycan í hástert og hann hlaut rokkstjörnumóttökur á bílasýningunni í Frankfurt. Við höfum fengið mjög góð viðbrögð við honum og eru fjölmargar forpantanir komnar í vinnslu hjá okkur. Það vekur sérstaka athygli okkar hvað Taycan hefur breiða skýrskotun á markaðnum og því eru þeir, sem hafa skráð sig fyrir Porsche Taycan hingað til, ekki endilega úr hópi fyrri viðskiptavina okkar,“ segir Thomas.

Frábær akstursbíll og hreinar línur

Porsche Taycan hefur sitthvorn rafmótorinn, einn að framanverðu og hinn að aftanverðu sem gerir bílinn vissulega fjórhjóladrifinn, sem og tveggja gíra gírkassa tengdan við aftari mótorinn sem hjálpar til bæði við stórkostlega hröðun bílanna í Taycan fjölskyldunni sem og gerir þá sparneytnari á langkeyrslu. Aðrir áhrifavaldar þar að lútandi er mjög lítil loftmótstaða bílsins, eða einungis 0.22 cd og frábær tækni í tengslum við hleðslu á langkeyrslu.

Hreinar línur í hönnun ytra byrðis Porsche Taycan hafa einnig klára skírskotun til hönnunar Porsche í gegnum tíðina sem einstök hönnun innanrýmis bílsins ber einnig merki. Samtímis er klassískri hönnun Porsche í gegnum tíðina viðhaldið, sannur Porsche. Að framanverðu virkar hann breiður og kröftugur meðan hliðarsvipurinn ber sportlega eiginleika bílsins með sér með hallandi þaklínu sem er klár skírskotun í klassíska hönnun Porsche 911.

Stjórnklefi bílsins er einnig boðberi nýrra tíma með sínum hreinu línum og nýrri hönnun. Frístandandi mælaborðið virkar auk þess sem hæsti punktur stjórnklefans með bílstjórann í fyrirrúmi. Miðjusettur 10.9 tommu skjárinn sem og fáanlegur farþegaskjár skapa svo flæðandi ásýnd stjórnklefans. Með tilkomu Taycan, býður Porsche, í fyrsta skipti, upp á innréttingar án leðurs, sem aukabúnað. Innréttingar byggðar á byltingarkenndum, endurunnum efnum ýta enn undir endurnýtanleika og umhverfisvænt fótspor hins rafmagnaða sportbíls.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér