
Fyrsta eintakið sem smíðað var af Range Rover hefur verið selt fyrir 125 þúsund pund, andvirði 22 milljóna króna.
Bíllinn, sem seldur var á uppboði, er árgerð 1970 með upprunalegri vél og gírkassa. Þó svo hann sé fyrsti bíllinn frá Rover verksmiðijunni í Solihull var eintak nr. 3 tilbúið á undan. Ástæðan var sú að hann var blár og þótti henta betur í auglýsingar.
Talið var að bíllinn væri glataður en hann hafði verið málaður gullitaður. Frá árinu 1991 hefur bíllinn verið til sýnis hjá Land Rover í Huddersfield.
Hugmyndina að Range Rover jeppanum má rekja allt aftur til ársins 1958. Þá vildu forsvarsmenn Rover bílaverksmiðjanna smíða stærri jeppa en gamla Land Roverinn. Árið 1966 hófst loks hönnunarvinna að fyrstu kynslóð jeppans eftir nokkrar misheppnaðar hugmyndir árin á undan. Á árunum 1967 til 1970 voru smíðaðir 40 þróunarbílar.
Í dag væru slíkir bílar vandlega huldir og haldið frá augum almennings. Rover menn fóru hins vegar þá leið að merkja 26 þeirra Velar, nafni félags sem þeir skráðu í bresku fyrirtækjaskrána, og setja þá á númeraplötur. Velar getur hafa merkt tvennt, VEightLandRover(V8LandRover) og hylja eða fela sem dregið er af ítalska orðinu velare.
Range Rover var frumsýndur árið 1970. Hönnun hans vakti mikla athygli. Hið virta Louvre safn í París sýndi bílinn ári seinna og sagði hann einstaka iðnhönnun. Mikil eftirspurn var eftir jeppanum og árs bið eftir nýjum bíl.
Árið 1970 kostaði Range Roverinn 1.998 pund á sama tíma og Rolls Royce kostaði 10.000 pund. Ef notast er við slíka samanburðarfræði myndi Range Roverinn kosta um 50.000 pund í dag, eða fimmtung af verði Rolls Royce sem kostar nú í kringum 250.000 pund.
Saga Range Rover birtist í ársbyrjun 2013 í áramótablaði Viðskiptablaðsins. Hana má lesa hér.