*

Veiði 30. júní 2015

Fyrstu laxarnir komnir á land í Selá og Hofsá

Þorbjörg Jónsdóttir veiddi fyrsta laxinn í Selá þetta sumar og var það 83 sentimetra hrygna.

Þessa dagana er verið að opna Vopnafjarðarárnar Selá og Hofsá. Í tilkynningu frá veiðifélaginu Streng segir að veitt verði með tveimur til þremur dagstöngum fyrst í stað. Stöngum verði svo fjölgað þegar líði á veiðitímabilið. Talsvert vatn er í báðum ánum, en þær eru þó ekki mjög litaðar og ekki hefur orðið vart við að vatnið hafi mengast af völdum gossins í Holuhrauni.

Þorbjörg Jónsdóttir, félagi í veiðifélaginu Streng og landeigendi við Selá, veiddi fyrstu laxana í Selá þetta sumarið. Aðeins er veitt á flugu í Selá og Hofsá og nánast öllum veiddum laxi sleppt .

Fyrsti lax Þorbjargar var 83 sm hrygna og veiddist á Sunray Shadow flugu í Selárfossi skammt fyrir ofan sundlaugina í Selárdal. Katrín Gústafsdóttir og eiginmaður hennar Vífill Oddsson fengu skömmu síðar aðra hrygnu í Kletthyl nokkru neðar, 88 sm líka á Sunray Shadow flugu.

Í tilkynningunni er fjallað um þá kenningu að konur séu mun fisknari en karlar, sérstaklega þegar veitt er með flugu. Er í því sambandi minnt á að einn stærsti stangveiddi laxinn á Bretlandseyjum var veiddur af frægustu veiðikonu síðustu aldar, Georgina Ballentine, sem landaði 64 punda laxi í Tayánni 7. október 1922. Árið 1938 veiddi Curtis 62 punda lax í ánni Namsen í Noregi.

Stangveiðimenn frá Luxembourg Salmon Club hófu veiðina í Hofsá og settu strax í nokkra laxa á miðsvæðunum. Efstu svæðin koma svo fljótlega inn í veiðina og ríkir mikil tilhlökkun meðal veiðimanna að veiða á þeim slóðum.

Fyrsta reglulega hollið í Selá byrjar veiðar að kveldi 30. júní.

Stikkorð: Hofsá  • Laxveiði  • Selá