*

Menning & listir 20. september 2015

„Gæti ekki gert þetta allan daginn“

Ný bók eftir glæpasagnahöfundinn Ragnar Jónasson er væntanleg í haust. Samhliða rithöfundaferlinum er hann yfirlögfræðingur GAMMA.

Kári Finnsson

Ragnar Jónasson hefur ekki setið auðum höndum síðustu árin. Eftir hann liggja sex bækur og er sú sjönda á leiðinni í haust, í tæka tíð fyrir jólabókaflóðið. Á daginn starfar Ragnar sem yfirlögfræðingur sjóðstýringafélagsins GAMMA en hann segir gott skipulag gera honum fært að sinna ritstörfum samhliða lögfræðistörfunum og fjölskyldulífinu.

Hvernig hefst þinn rithöfundaferill?

„Ég fékk þá hugmynd að þýða Agöthu Christie bækur þegar ég var sautján ára og vantaði eitthvað að gera yfir sumarið,“ segir Ragnar. „Þá sýndi Skjaldborg bókaútgáfa mér það traust að þýða eina bók. Ég skil ekki ennþá af hverju þau gerðu það þar sem ég hafði enga reynslu af slíku. Ég hélt síðan áfram að gera þetta á sumrin, einu sinni á ári. Svo prófaði ég mig áfram við að skrifa skáldsögur en ég gaf mér aldrei almennilegan tíma í það. Síðan var bókaútgáfan Bjartur með samkeppni fyrir svona sex sjö árum; þeir voru að leita að hinum íslenska Dan Brown þegar hann var hvað vinsælastur. Þetta var í fyrsta skipti sem ég hafði séð auglýst eftir glæpasöguhandriti og ég ákvað því að klára bók sem ég var byrjaður á, þó svo að hún væri í allt öðrum stíl. Það var gott að hafa skilafrest til að fá hvatann til að klára bókina. Þannig að ég sendi hana inn. Að lokum vann enginn þessa keppni. Ég held að þeir hafi ekki fundið hinn íslenska Dan Brown en að minnsta kosti tveir höfundar fengu útgáfusamning og þar á meðal var bókin mín, sem var gefin út árið eftir. Fljótlega kviknaði áhugi á henni erlendis og ég fann hjá mér löngun til að skrifa næstu bók – sem var Snjóblinda. Í kjölfarið hóf ég að eyða frítíma mínum í þetta og hætti jafnframt að þýða bækur. Ég ver reyndar meiri tíma í ritstörfin en áður, en maður fórnar bara einhverju öðru – eins og sjónvarpsáhorfi.“

Hvernig finnur yfirlögfræðingur hjá fjármálafyrirtæki tíma til að skrifa bækur?

„Þetta er ekkert einfalt. Þetta er spurning um aga og að fórna einhverju öðru í staðinn. Það hafa allir einhvern frítíma og menn verða að velja hvað þeir gera við hann. Ég nýti minn frítíma í þetta og mitt sumarfrí fer t.d. í að fara á bókmenntahátíðir. Síðan þarf maður að eiga þolinmóða fjölskyldu. Stundum koma konan mín og dætur mínar með á bókmenntahátíðir. Þær sýna mér mikinn skilning. Enda væri þetta varla hægt án þess. Síðan sest maður niður og skrifar. Ég reyni að skrifa eitthvað á hverjum degi. Það er oft klukkan 10 eða 11 á kvöldin sem maður finnur einn klukkutíma. Svo kemur þetta smátt og smátt. Það er engin leið að setjast niður og ætla að skrifa niður bók á einum mánuði.

Þetta er líka ágæt tilbreyting frá vinnunni. Maður reynir bara að skrifa eitthvað allt annað en lögfræði. Þetta er auðvitað mjög einstaklingsbundið en það er mjög lýjandi að skrifa skáldsögu. Ég hugsa að ég gæti ekkert gert þetta allan daginn hvort eð er. Ég get bara skrifað eitthvað ákveðið á dag og þá eru hugmyndirnar búnar. Maður verður bara andlega þreyttur. Fyrir mig þá finnst mér bara frábært að geta kúplað mig út úr dagvinnunni og gert eitthvað annað. Ef ég hefði allan daginn í þetta þá myndi ég bara nota klukkutíma eða tvo tíma í þetta á hverjum degi. Maður getur fengið hugmynd hvenær sem er og þá skrifar maður hana bara hjá sér og nýtir hana síðar.“ 

Ragnar er í ítarlegu viðtali í Eftir Vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Ragnar  • Jónasson