*

Menning & listir 29. nóvember 2017

Gallerí Fold heldur jólauppboð

Boðin verða upp 173 verk eftir fjölda íslenskra listamanna.

Næstkomandi mánudags- og þriðjudagskvöld, 4. og 5. desember, kl. 18 verður 108. uppboð Gallerís Foldar haldið, að Rauðarárstíg 14. Sýning verkanna hefst miðvikudaginn 29. nóvember og verða verkin sýnd daglega fram að uppboði á opnunartíma Gallerísins og á myndlist.is. Á þessu tvöfalda jólauppboði verða boðin upp 173 verk eftir fjölda íslenskra listamanna.

Elsta verkið sem boðið verður upp að þessu sinni er mynd eftir Emanuel Larsen af Heklu en myndina gerði hann árið 1840. Þá verður boðið upp landslagsmálverk eftir Þórarinn B. Þorláksson frá árinu 1899 en hann hélt fyrstu sýninguna á Íslandi ári síðar. Þá er að finna vatnslitamynd eftir Guðmund Thorsteinsson, Mugg, af Þórðarhöfða í Skagafirði frá 1918. Á uppboðinu er einnig olíumálverk af Vífilfelli eftir Jóhannes S. Kjarval sem líklega er málað rétt eftir 1920 en það var sýnt í Charlottenborg 1927. Þá má nefna götumynd frá Kaupmannahöfn eftir Nínu Tryggvadóttur frá 1938 málaða með olíu. Einnig verður boðin upp  æting eftir Rembrandt sem er þrykkt hjá Reichsdruckerei um 1950 eftir plötu sem listamaðurinn gerði árið 1650. 

Á uppboðinu eru fjöldi verka eftir helstu myndlistarmenn þjóðarinnar, þar á meðal sex verk eftir Jóhannes S. Kjarvala og önnur sex eftir Kristján Davíðsson, auk glæsilegra verka eftir Louisu Matthíasdóttur sem eru metin á allt að sex milljónir króna. Þá verður boðið upp úrvals pastelverk eftir Gunnlaug Blöndal af Glaumbæ í Skagafirði og annað frá Vestmannaeyjum, rauðkrítarmynd eftir Alfreð Flóka ásamt stórri gvassmynd eftir Karl Kvaran.

Þrjú verk eftir Braga Ásgeirsson eru meðal uppboðinna verka; módelmynd í olíu frá 1952, steinþrykk frá 1956 og verk frá 1977 sem unnið er með olíu og í eru dúkkur og aðrir fundnir hlutir.

Af samtímalistamönnum má nefna nokkur verk eftir Karólínu Lárusdóttur, Tolla, Línu Rut, Helga Þorgils, Eirík Smith, Hrafnhildi Ingu Sigurðardóttur og Daða Guðbjörnsson.