*

Tölvur & tækni 2. apríl 2013

Game of Thrones setur heimsmet í ólöglegu niðurhali

Aldrei hafa fleiri deilt einum sjónvarpsþætti í einu með torrent tækni en í gær og í fyrradag.

Aldrei hafa fleiri deilt einum þætti í einu með torrent tækni en fyrsta þættinum í þriðju seríu af Game of Thrones þáttaröðinni. Þátturinn var frumsýndur á sunnudagskvöld í Bandaríkjunum og þegar mest lét voru 163.088 manns að ná í hann eða deila honum með BitTorrent. Eru þetta um 20.000 fleiri deilendur en á fyrsta þætti þriðju seríu af Heroes, en sá þáttur átti metið þar til í gær.

Það sem veldur þessari sprengingu í ólöglegu niðurhali er einkum mikill áhugi erlendra aðdáenda þáttarins. Í frétt Gizmodo er að finna lista yfir það hvaðan fólkið kom sem var að deila þættinum. Aðeins 12,9% þeirra voru frá Bandaríkjunum, en um 11,5% voru frá Bretlandi, 9,9% frá Ástralíu og 7,4% frá Kanada.

Alþjóðlegir aðdáendur seríunnar þurftu reyndar ekki að bíða lengi eftir því að geta séð þáttinn löglega, en hann var t.d. sýndur á Stöð 2 í gær. Greinilegt er þó að margir hafa ekki þolað jafnvel svo litla bið.