*

Bílar 17. október 2012

Gamli Land Roverinn kveður brátt - eftir 64 ár

Hætt er við að gamli sveitajeppinn í sinni upprunalegu mynd heyri fljótlega sögunni til. Nýr Land Rover kemur á markað vestanhafs árið 2015.

Breski bílaframleiðandinn Land Rover, sem var í fyrstu jeppadeild Rover, hefur hug á að framleiða nýja gerð af Defender jeppanum. 

Bíllinn verður byggður á hugmyndabíl sem var kynntur á bílasýningunni í Frankfurt í fyrra. Hann fór ekki sérlega hátt þá.

Nú hefur Ralf Speth, forstjóri Jaguar Land Rover, tilkynnt að jeppinn verði boðinn til sölu í Bandaríkjunum árið 2015. Defenderinn hefur verið ófáanlegur þar í landi frá árinu 1997 vegna strangra öryggiskrafna. Bílaáhugamenn munu samt ekki vera neitt sérstaklega spenntir fyrir bílnum sem slíkum og gera kröfu um að bíllinn sem komi á göturnar verði ekki mikið öðruvísi en hugmyndaútgáfan.

Gamli Defenderinn á sérstakan stað í hjörtum flestra bílaáhugamanna þótt hann hafi löngum þótt minna fremur á traktor en jeppa, verið í þyngri kantinum og klunnalegur. Takist bílaframleiðandanum að tengja bílanna saman með því að taka sálina úr þeim gamla og færa inn í hugmyndabílinn þá þurfa þeir ekki að örvænta.

Gamli góði Land Roverinn

Flestir landsmenn ættu að þekkja jeppa sem þessa enda stóð slíkur gripur fyrir utan nær alla bóndabæi á Íslandi.

Jeppinn var í fyrstu byggður á bandaríska Willy´s jeppanum. Upphafið má rekja til þess að tæknistjóri Rover bílaverksmiðjanna í Coventry, Maurice Wilks, hafði notað Willy´s jeppann í stað traktors á jörð sinni í  Wales. Hann hafði orð á þessu við forstjóra verksmiðjanna og úr varð að jeppinn fór í framleiðslu árið 1948.

Þessi er frá 1966.

Nýjasta útgáfan af Defender. Land Rover hefur tekist að halda sálinni í jeppanum, þrátt fyrir talsverðar breytingar á 64 árum.