*

Bílar 13. nóvember 2018

Gamlir klassískir Benzar í uppáhaldi

Sævar Þór Jónsson, lögmaður, er mikill bílaáhugamaður og er sérstaklega hrifinn af Mercedes-Benz.

Róbert Róbertsson

Sævar Þór Jónsson, lögmaður og einn eigenda Lögmenn Sundagörðum, er mikill bílaáhugamaður og er sérstaklega hrifinn af Mercedes-Benz. Sævar Þór hefur átt marga flotta bíla en segir að 1972 módelið af Mercedes-Benz með V8 vél sé uppáhaldsbíllinn. Eftirminnilegasta bílferðin hans var hins vegar í Mazda 323 árgerð 1978.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Ég hef átt marga uppáhaldsbíla í gegnum tíðina. Nú á ég 72 módel af Mercedes-Benz með V8 vél sem ég held mikið upp á. Ég hef verið að gera hann upp undanfarið. Svo er það auðvitað Mercedes-Benz S-Class 500. Báðir eru þeir alveg magnaðir bílar að keyra og enginn sem slær þeim út hvað fólksbíla varðar. Eiginleikar þessara bíla hvað varðar þægindi og öryggi eru engu líkir. Þá er þjónustan mjög góð hjá umboðinu og það skiptir miklu máli."

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Það er 78 módel af Mözdu 323. Það var bíll sem ég fékk gefins og það var ágætis bíll þótt hann væri mjög ryðgaður. Móðir vinar míns hafði átt hann og hún gaf mér hann þegar ég fékk bílpróf. Bíllinn var ótrúlegt hræ orðið, lak olíu og bensíni og sjálfskiptingin var að gefa sig. Við vinirnir fórum með hann á endurvinnslustöð og lékum okkur að því að pressa hann með skóflugröfu. Maður var kannski fulldjarfur á þeim tíma en það er alveg ljóst að í dag hefði maður aldrei fengið leyfi til að aka um á svona bíl."

Hver er besti bílstjóri sem þú þekkir (fyrir utan sjálfa þig)?

,,Það er tengdafaðir minn Lárus Lárusson. Hann hefur ítrekað haft orð á því að ég keyri bílana mína fullglannalega og að ég sé of kátur á bensínpedalanum. Hann fer aldrei yfir 90."

En versti bílstjórinn?

,,Það er ég sjálfur. Ég er alltaf að hugsa um eitthvað annað þegar ég er að keyra, það hræðir mig stundum. Ég hef aldrei orðið valdur að slysi en ég verð að nefna sjálfan mig því mér finnst ég þurfa að taka mig á. En fyrir utan mig er það líklega móðir mín því hún er of taugaóstyrk við stýrið."

Hvað hlustarðu helst á í bílnum?

,,David Bowie og Gus Gus en ekki hvað? Svo er Wagner líka alltaf góður í bílnum."

Nánar má lesa um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

Stikkorð: Mercedes-Benz