*

Menning & listir 26. mars 2021

Gaus hjá Björk á sama stað árið 2015

Tónlistarmyndband Bjarkar við lagið black lake frá árinu 2015 innihélt sitt eigið gos í Geldingadölum.

Ég er svo agndofa yfir þessu eldgosi! Ég trúi ekki að þetta er nákvæmlega þar sem við tókum upp lagið black lake,“ skrifar Björk Guðmundsdóttir í færslu á Facebook. Ennfremur tekur hún fram að myndbandið við lagið innihélt sitt eigið (blátt) gos í Geldingadölum. Myndbandið, sem er tíu mínútur að lengd, var tekið í Geldingadölum og kom út árið 2015.  

„Það er svo undarlega fyrirboðandi að horfa á sjálfa mig tipla berfætt á tánum í Iris van Herpen hraunkjól, særð og berskjölduð í leit að frelsun,“ skrifar Björk en lagið fjallaði um geðhreinsun (e. catharsis) og að læknast. „Þetta sýnir að fyrr eða síðar læknast allt, sár gróa, það geta verið ör en það er gríðarlegt rými í náttúrunni til að búa til ný fjöll og halda áfram.“ 

„Dalurinn þar sem við tókum upp, Geldingardalur, er hægt og rólega að hverfa og að fyllast upp af hrauni og mögulega kominn með nýtt nafn: Fagrahraun, sem þýðir „beautiful lava“. Sem það er!!“ segir Björk og bætir við að við Íslendingar erum stoltir foreldrar hinna nýju hraunfjalla.