*

Heilsa 8. október 2013

Gefa hlaupurum góð ráð

Elísabet Margeirsdóttir og Karen Kjartansdóttir skrifuðu bókina Út að hlaupa.

Bókin Út að hlaupa kom út í dag. Bókin er skrifuð af þeim Elísabetu Margeirsdóttur næringarfræðingi og Karen Kjartansdóttur upplýsingafulltrúa. Bókin hefur verið í vinnslu um nokkurra mánaða skeið og Elísabet segir í samtali við VB.is að það hafi tekið nokkurn tíma að safna saman öllum upplýsingum sem þær vildu hafa í bókinni. Þær hafi líka fengið fjölmarga i lið með sér til að gefa góð ráð í bókinni. 

Elísabet segir bókina bæði vera fyrir byrjendur og fyrir lengra komna. „Þetta er uppflettirit fyrir alla þá sem vilja hlaupa. Bæði fyrir þá sem eru rétt að byrja að hlaupa, en líka fyrir þá sem eru vanari hlauparar og hafa bara gaman að því að lesa um hlaup og hlauparáð. Ég myndi halda að þetta gæti gagnast langflestum sem stunda hlaup og vilja stunda hlaup,“ segir Elísabet.

Hún segir bókina vera mjög yfirgripsmikla. „Við förum yfir víðan völl, förum yfir búnað og mataræði fyrir hlaupara og ráð fyrir þá sem eru að reyna að léttast,“ segir Elísabet. Í lok hvers kafla megi svo finna ráð frá hlauparáðgjöfum sem koma úr ólíkum áttum. Í þeim hópi eru til dæmis leikari, fréttamaður, ferðamálafrömuður og fleiri.  

„Þótt hlaup sé einföld íþrótt þá er þetta samt svo miklar upplýsingar sem hægt væri að setja í svona bók,‟ segir Elísabet og bætir því við að verið sé að reyna að kynna nýja vinkla fyrir fólki. 

Stikkorð: Hlaup