*

Matur og vín 9. júlí 2020

Gefa út nýtt íslenskt brennivín

Brunnur Distillery hefur gefið út nýtt „mjúkt og ljúft“ íslenskt brennivín sem ber heitið Þúfa.

Brunnur distillery, sem framleiðir hið margverðlaunaða Himbrimi Gin, hefur gefið út nýtt íslenskt handgert brennivín, sem ber nafnið „Þúfa“. Brennivínið er hæg-eimað í sérsmíðuðum eimingarkatli sem notar hita frá heitu hveravatni til þess að eima og er búið til úr handtýndu kúmeni, vallhumli og reyrgresi, en reyrgresið gefur frá sér ilm sem flestir íslendingar kannast vel við. 

Þúfa Brennivín bragðast því vissulega eins og íslensk náttúra, með smá vanillu og karamellu keim. Reyrgresið er mjög afgerandi og hefur verið notað á Íslandi í aldanna rás til þess að gefa góðan ilm inná heimili, meðal annars með því að hengja það í fataskápa og strá það á kirkjugólf. Þetta er sætur grasilmur sem minnir á íslensku náttúru.

„Íslenskt brennivín er í raun og veru séríslensk útgáfa af hinu Skandinavíska ákavíti, sem er eimað snaffs með kúmenbragði. Íslenskt brennivín hefur hins vegar ekki verið með neitt gæða orðspor, og vilja sumir halda því fram að íslenskt brennivín sé ruddalegt og tengja það oft við kæstan hákarl,“ segir í tilkynningu Brunns.

„Okkar markmið er að endurheimta orðspor íslensks brennivíns og kynna það erlendis sem hágæða áfengi, sem það jú er. Orðið brennivín er gamalt orð sem bendir einfaldlega til þess að vínið sé eimað eða brennt. Brennivín á hins vegar ekki að brenna í hálsinum eða neitt slíkt, og er Þúfa þá líka einstaklega mjúkt og ljúft brennivín.“

Vínbúðin hóf sölu á Þúfu í byrjun mánaðarins. 

Stikkorð: Brennivín  • Himbrimi gin  • Brunnur distillery  • Þúfa