*

Tölvur & tækni 16. desember 2011

Gengi BlackBerry-framleiðanda hefur hrunið á árinu

Árið hefur ekki verið gott fyrir bandaríska tæknifyrirtækið Research In Motion. Félagið hefur dregist aftur úr í farsímakapphlaupinu.

Gengi hlutabréfa í bandaríska tæknifyrirtækinu Research In Motion, RIM, féll um 8,3% á fjármálamörkuðum í gær eftir að stjórnendur fyrirtækisins greindu frá verri uppgjöri en vænst hafi verið auk þess sem ný kynslóð af BlackBerry-farsímanum komi ekki á markað fyrr en næsta haust.

Upphaflega átti nýr sími að koma á markað eftir áramót.

RIM var með næstum 25% markaðshlutdeild á bandarískum farsímamarkaði en hefur lotið í lægra haldi fyrir velgengi Apple og annarra tæknifyrirtækja á snjallsímamarkaði. Markaðshlutdeildin er nú komin niður í 9,2% vestanhafs og er afkoman eftir því slök, 265 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi sem er 71% samdráttur á milli ára. Tekjur drógust hins vegar aðeins saman um 6% á milli ára.

Gengi hlutabréfa í RIM stóð í 13,88 dölum á hlut í gærkvöldi. Það hefur hrunið um 74% frá áramótum.

Stikkorð: BlackBerry  • RIM  • Research In Motion