*

Sport & peningar 17. apríl 2019

Gengi hlutabréfa Juventus hríðfellur

Gengi hlutabréfa Juventus féll um 22% í fyrstu viðskiptum dagsins í kjölfar þess að félagið féll úr leik í Meistaradeildinni.

Gengi hlutabréfa ítalska knattspyrnustórveldisins Juventus féll um 22% í fyrstu viðskiptum dagsins í kauphöllinni í Mílanó, en félagið var slegið úr keppni í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi af hollenska liðinu Ajax. BBC greinir frá.

Eftir því sem leið á dag náði gengið sér aðeins á strik en hafði þó fallið um 15% um miðjan dag. 

Miklar væntingar voru gerðar til þess að Juventus myndi sigra keppnina í ár og var koma Cristiano Ronaldo til félagsins síðastliðið sumar helsta ástæða þeirra væntinga. Ronaldo, sem af mörgum er talinn besti knattspyrnumaður heims, hefur unnið Meistaradeildina í fjögur skipti af síðustu fimm mögulegu með Real Madrid og því voru þessar væntingar skiljanlegar.

Hlutabréf Ajax í hæstu hæðum

Ofangreindur leikur milli Juventus og Ajax hafði ekki eingöngu áhrif á gengi hlutabréfa Juventus. Gengi hlutabréfa Ajax hækkaði um 8,5% í kjölfar sigursins. Er félagið nú verðlagt á yfir 300 milljónir evra og hefur félagið aldrei verið metið hærra.

Stikkorð: hlutabréf  • Juventus  • Meistaradeild Evrópu  • Ajax