*

Sport & peningar 9. september 2018

Gengur betur á markaði en á vellinum

Hlutabréfaverð Manchester United er í hæstu hæðum þrátt fyrir ólgu innan félagsins. Tekjur liðsins jukust um 60% milli 2013 og 2017.

Ástgeir Ólafsson

Engin lognmolla hefur verið í kringum enska knattspyrnuliðið Manchester United undanfarin ár og mánuði eins og flestir knattspyrnuáhugamenn vita. Félagið hefur átt í töluverðum vandræðum inni á knattspyrnuvellinum frá því að hinn goðsagnakenndi knattspyrnustjóri, Sir Alex Ferguson, lét af störfum hjá félaginu árið 2013 eftir 26 ár og 13 meistaratitla. Þá virðist núverandi knattspyrnustjóri félagsins, José Mourinho eiga í útistöðum við bæði forráðamenn félagsins og sína stærstu stjörnu.

Hækkað um 55% 

Á meðan árangur United inni á knattspyrnuvellinum hefur verið takmarkaður er aðra sögu að segja af gengi hlutabréfa félagsins sem skráð voru á markað í kauphöllinni í New York árið 2012. Á síðustu 12 mánuðum hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um 55% og nemur markaðsvirði þess nú rúmlega 4,2 milljörðum dollara. Þá hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 25% frá því í byrjun ágúst og hafði aldrei verið hærra þegar það stóð í 26,2 dollurum á hlut síðastliðinn föstudag.

En hvað er það sem skýrir þessa miklu hækkun á hlutabréfaverði félagsins á meðan kjarnastarfsemi þess, þ.e. fótboltinn sjálfur, gengur ekkert sérstaklega vel á síðustu árum? Eins og með flest fyrirtæki ræðst hlutabréfaverð þeirra af væntingum fjárfesta um afkomu fyrirtækisins á næstu árum og inn í framtíðina. Manchester United er samkvæmt lista Forbes yfir verðmætustu íþróttavörumerki í heimi árið 2018 það næst verðmætasta á eftir Dallas Cowboys og er metið á 4,12 milljarða dollara. Hækkaði virði félagsins um 12% á milli ára. Tekjur félagsins námu 581 milljón punda á reikningsárinu 2017 en reikningsár félagsins nær fyrir lokaársfjórðung reikningsársins 2018 en afkomuspá gerir ráð fyrir því að tekjur verði á bilinu 575-585 milljónir punda og að leiðrétt EBITDA verði á bilinu 175-185 milljónir.

Mikill tekjuvöxtur 

Eins og áður segir hefur verið mikill vöxtur í tekjum félagsins á síðustu árum. Tekjur félagsins skiptast í þrjá þætti: Tekjur á leikdegi, tekjur af sjónvarpsréttindum og tekjur af vörumerkinu sjálfu sem skiptist í auglýsingasamninga (e. sponsorship), smásölu á varningi og tekjur af fjarskipta- og efnismarkaðssetningu (e. mobile and content). Á meðan tekjur á leikdegi hafa nánast staðið í stað hafa tekjur af sjónvarpssamningum og vörumerkinu sjálfu aukist verulega. Árið 2013 námu tekjur af vörumerkinu 152 milljónum punda en námu 276 milljónum árið 2017 sem er aukning upp á 82%. Jukust tekjur af auglýsingasamningum um 79% á tímabilinu, þá sérstaklega vegna risastórra treyjusamninga við Adidas og Chevrolet auk þess sem United hefur gert auglýsingasamninga við fyrirtæki í nánast hvaða geira eða iðnaði sem sem til er en samstarfsaðilar félagsins á heimsvísu eru samtals 24.

Þá hafa tekjur af sjónvarpsréttindum aukist um 90% milli 2013 og 2017 eða úr 102 milljónum punda í 194 milljónir punda. Ástæðan fyrir þessari hækkun skýrist af miklu leyti af því að nýjasti samningur sem enska úrvalsdeildin gerði um sjónvarpsréttindi fyrir árin 2016-2019 nam rúmlega 5,1 milljarði punda og var um 80% hærri en samningurinn frá 2013-2016. Þess ber þó að geta að forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa nú þegar samið um stærstan hluta sjónvarpsréttinda af deildinni fyrir árin 2019-2022 og er gert ráð fyrir að heildarupphæðin lækki niður í 4,4 milljarða punda samkvæmt BBC. Það verður þó að teljast líklegt að fjárfestar telji framtíðarhorfur Manchester United vera góðar og félagið geti haldið tekjuvexti sínum áfram til framtíðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Manchester  • United