*

Menning & listir 14. desember 2018

Georg kominn með sjöttu háskólagráðuna

Georg Bjarnfreðarson, sem nú „rekur“ verslunina Georgskjör er að eigin sögn kominn með enn eina háskólagráðuna.

Sjónvarpspersónan góðkunna Georg Bjarnfreðarson, sem brugðið hefur fyrir á skjám landsmanna í vaktaseríunum og kvikmyndinni Bjarnfreðarson, og er leikinn af Jóni Gnarr, hefur nú bætt við sig sjöttu háskólagráðunni. Þessu greinir Georg frá í nýrri auglýsingu stéttarfélagsins VR. Eins og frægt er orðið var Georg með fimm háskólagráður í fyrrnefndum þáttum og kvikmynd.

Ekki liggur ljóst fyrir hvers konar gráða það er sem er sú sjötta í talinu en áður hefur Georg að eigin sögn lokið háskólagráðum í sálfræði, félagsfræði, uppeldisfræði og stjórnmálafræði, auk kennsluréttinda.  

Georg hefur átt endurkomu í sjónvarp að undanförnu í fyrrnefndum auglýsingum VR. Í auglýsingunum, sem sjá má hér, er Georg búinn að opna verslunina Georgskjör. Hann hefur ráðið starfsmann í vinnu og í auglýsingunum er sýnt með gamansömum hætti hvernig hann brýtur ítrekað á réttindum starfsmannsins. 

Fyrrnefndar auglýsingar VR eru nokkrar talsins og má ætla að þær tengist komandi kjaraviðræðum, en um áramótin losna kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum.

Sjá má auglýsinguna þar sem Georg greinir frá nýju háskólagráðunni hér að neðan.    

Stikkorð: VR  • Georg Bjarnfreðarson