*

Menning & listir 2. nóvember 2020

Gera nýja þáttaröð af Stellu Blómkvist

Unnið er að gerð annarrar sjónvarpsþáttaraðar um lögfræðinginn sem Sagafilm framleiðir fyrir Viaplay og Sjónvarp Símans.

Norræna streymisveitan Viaplay og Sjónvarp Símans vinna saman að nýrri þáttaröð úr íslensku sakamálaseríunni Stella Blómkvist. Þátturinn er nú þegar í framleiðslu á Íslandi og Heiða Rún Sigurðardóttir (Heida Reed úr Poldark á BBC) verður áfram í aðalhlutverki. Það er Sagafilm sem gerir þættina fyrir Sjónvarp Símans og Viaplay

Fyrsta serían hlaut átta tilnefningar til Eddunnar – íslensku kvikmyndaverðlaunanna. Annarri seríu verður streymt á Viaplay um Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin. Þáttaröðin er framleidd af Sagafilm með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.

Snjöll, miskunnarlaus og með smekk fyrir fínu viskíi, kýs reykvíski lögfræðingurinn Stella Blómkvist aðeins eina leið að réttlæti – sína eigin. En eftir því sem tengsl hennar við nokkra af öflugustu stjórnmálamönnum Íslands aukast, stendur Stella frammi fyrir röð flókinna mála sem neyða hana til að nýta einstaka hæfileika sína – og lögin – til hins ýtrasta.

Filippa Wallestam, dagskrárstjóri hjá NENT Group segir um þættina:

„Stella þýðir „stjarna“ og þessi beitta og óhefðbundna þáttasería er eitt skærasta ljósið í íslenskri þáttagerð í dag. Fjárfesting í einstakri sagnagerð á hverjum stað er forgangsverkefni NENT Group á hverjum markaði fyrir sig. Viaplay hefur haft mótandi áhrif á streymismarkaðinn á Íslandi síðan veitan hóf göngu sína í vor og við erum rétt að byrja.“

Stella Blómkvist er byggð á samnefndum metsöluskáldsögum og er leikstýrt af Óskari Þór Axelssyni, sem einnig gerði Svartur á leik og Þóru Hilmarsdóttur, sem gerði Brot.

Þáttaröðin samanstendur af sex þáttum og er dreift á heimsvísu af Red Arrow Studios International og af Lumière í Niðurlöndunum, það er Belgíu, Hollandi og Lúxemborg.

Fyrsta serían var meðal annars sýnd á streymisveitu AMC Networks, Sundance Now, í Norður-Ameríku, Bretlandi, Ástralíu og Nýja Sjálandi og af NBCUniversal Global á Spáni og á frönskumælandi svæðum.

Áskriftarpakki Viaplay „Kvikmyndir og þættir“ kom á íslenskan markað 1. apríl og meira en 5% heimila í landinu keyptu áskrift á upphafsvikunum. Íþróttapakki Viaplay, sem meðal annars sýnir frá þýsku meistaradeildinni í fótbolta (Bundesliga) og Formúlu 1 kappakstrinum, varð fáanlegur á Íslandi frá og með 15. maí.