*

Tölvur & tækni 23. október 2012

Gera sig klára fyrir Windows 8

Allt er á fullu í herbúðum Microsoft og hjá fyrirtækjum sem framleiða tækjabúnað sem keyra mun á nýja stýrikerfinu Windows 8.

Allt er á fullu í herbúðum Microsoft og fyrirtækjum sem framleiða tól og tæki sem keyra á Windows-stýrikerfinu áður en nýjasta kynslóð þess lítur dagsins ljós. Nýtt stýrikerfi, Windows 8, verður kynnt með pompi og prakt síðar í vikunni og mun það vera ein mesta yfirhalning á stýrikerfinu síðan Windows 95 leit dagsins ljós fyrir sautján árum.

Stýrikerfið er hannað fyrir bæði hefðbundnar tölvur ekki síður en spjaldtölvur og snjallsíma sem keyra á Windows-stýrikerfinu frá Microsoft.  

Microsoft tilkynnti í tilefni af þessu í dag, að fyrirtækið hafi endurhannað allan Office-pakkann fyrir næstu kynslóð stýrikerfisins og muni hún styðja við svokallað SkyDrive, sem gerir notendum kleift að vista öll skjöl og gögn á notendasvæði á netinu. Þetta gerir netverjum kleift að nálgast gögn sín á notendasvæði sínu á hvaða tölvu sem er. Nálgun sem þessa ættu þeir sem hafa notað sambærilega þjónustu Google, Google Docs, nú Google Drive, að kannast við. 

Þá hefur bandaríski tækniframleiðandinn Dell ekki látið sitt eftir liggja en fyrirtækið hefur hannað 10 tól og tæki sem munu keyra á nýjasta stýrikerfinu frá Microsoft. Þar á meðal er fartölva sem hægt verður að breyta í spjaldtölvu. Með því móti verður hægt að nýta eiginleika Windows 8 fyrir spjaldtölvur og útgáfuna af stýrikerfinu sem líkist þeirri hefðbundnu útgáfu sem tölvunotendur eiga að kannast við. 

Stikkorð: Microsoft  • Windows 8