*

Ferðalög & útivist 20. maí 2013

Gerum ferðalagið auðveldara

Það er vesen að ferðast. Og enn meira vesen að ferðast með börn. Nokkur einföld atriði geta þó gert þessa lífsreynslu þægilegri. Fyrir þig og umheiminn.

Lára Björg Björnsdóttir

Þegar ferðalagið er flókið eða ferðast er með börn er mikilvægt að reyna að hafa nokkur veigamikil atriði á hreinu. Einföldun, skipulag og klókindi eru lykilorð. Með þessi orð að leiðarljósi eru þér allir vegir færir. 

Þegar ferðast er með börn – fyrir hina farþegana 

Þegar þú gengur inn í flugvélina með lilla/lillu muntu senn komast að því að fólk vill ekki sitja nálægt þér. Vertu því með alls kyns skaðabætur á þér eins og lítil tópasskot, pening og annað skemmtilegt. Þessu skaltu dreifa um og gefa fólki í kringum þig þegar barnið þitt tekur upp á því að vera með vesen og vitleysu þegar korter er liðið af fluginu. 

Þegar ferðast er með börn – fyrir barnið og þig

Ekki halda í eitt augnablik að þetta verði auðvelt. Því skaltu vera búin(n) undir það versta. Vertu með föt til skiptana fyrir barnið. Taktu líka auka bol á sjálfa(n) þig. Vertu frekar með of mikið af blautþurrkum en of lítið. Það er ekki hægt að vinna með litlu kokteilservétturnar sem flugfélögin bjóða upp á. Ef þú ert að díla við trylling sem er tveggja ára og yngri þá er mjög sniðugt að taka gamla lyklakippu sem barnið hefur ekki áður séð og draga hana upp þegar pelinn, fótanudd, rugg, teletubbies og lífrænt ræktað snakk er orðið þreytt. 

Þegar ferðast er með börn – neyðarástand

Að sjálfsögðu verða börn pirruð þegar þau mega ekki hreyfa sig almennilega klukkutímum saman. Vertu því dugleg(ur) að ganga um með barnið þegar sætisbeltaljósin leyfa slíkt ráp. Plássið fremst í vélinni, fyrir aftan saga class tjöldin við útganginn er tilvalin skriðbraut fyrir börn sem ekki eru farin að ganga. Eldhúsið aftast í vélinni er ævintýraheimur fyrir tveggja ára og eldri. Og flugfreyjur eru yndislegar og elska allar börn svo móttökurnar verða góðar.  

Langt flug

Hér er mikilvægt að reyna að láta sér líða eins vel og hægt er. Pakkaðu kápunni/pelsinum/frakkanum ofan í ferðatöskuna við innritunarborðið. Vertu í þægilegum fötum og með hlýja sokka í handfarangri. Trefill kemur sér líka vel og er oft miklu betri en koddarnir sem eru í boði um borð. Drekktu vatn með sítrónu út í, þetta kemur í veg fyrir bjúg og ofþornun en hvorugt er æskilegt í flugi. Ekki þamba kaffi og áfengi í fluginu því þessir drykkir hafa slæm áhrif á taugakerfið og slíkt er ekki gott í löngum flugum. Sérstaklega fyrir þann flughrædda. 

Pakkað

Pakkaðu ofan í tösku tveimur dögum fyrir brottför. Daginn fyrir brottför skaltu kíkja í töskuna og þá er mjög líklegt að þú takir eitthvað upp úr henni sem þú hefðir aldrei notað hvort sem er. Gott er að pakka góðum buxum sem ganga bæði sem sparibuxur og hversdags. Þetta getur líka átt við pils eða kjól. En hér kemur aðalatriðið: Taktu alltaf með þér nóg af sokkum og nærfötum. Margir hugsa nefnilega: „Ég kaupi mér bara sokka og fleira þegar ég kem út.” En hver veit nema þú viljir frekar bara fara á bar, safn eða sigla um á gondóla og slaka á þegar þú ert komin til fyrirheitna landsins stað þess að fara í sveitta fatabúð sem er full af trylltum túristum í leit að brókum og sokkum. 

Hinir farþegarnir

Flugþjónn sem Viðskiptablaðið talaði við hafði þetta að segja um aðra farþega: „Ef manneskjan við hliðina á þér er Íslendingur, biddu um að láta færa þig. Ef það er kór um borð í vélinni, snúðu við og farðu út. Ef það er stór hópur af konum um borð, segjum allar eins klæddar, þá eru vandræði í uppsiglingu. Og ef það kemur náungi inn með gítar og sest nálægt þér, Guð hjálpi þér.“  

Stikkorð: Flug  • Börn  • Ferðalög  • Vandræði  • Hjálp