*

Tölvur & tækni 5. ágúst 2015

Geta stolið gögnum í gegnum heimilistæki

Nýsköpunarfyrirtæki hefur fundið upp nýja og byltingarkennda leið til að hakka tæki sem ekki eru tengd Internetinu.

Sérfræðingar hjá nýsköpunarfyrirtæki í New York hafa fundið leið til að breyta fjölda tækja í þráðlausa senda. Aðferðina má meðal annars nota til að stela gögnum, meira að segja úr tölvum sem eru ekki tengd Internetinu svo sem þeim sem stjórna kjarnorkuverum. CNN Money greinir frá þessu.

Þessi nýja leið til að stela gögnum byggist á því að breyta örgjörvum tækjanna þannig að þeir sendi frá sér rafsegulbylgjur. Gagnastreymið er mjög hægt, en aðferðin virkar best með raftækjum sem tengd eru löngum og stórum köplum. Kaplar geta virkað sem magnarar fyrir rafsegulbylgjurnar.

Um er að ræða byltingarkennda leið fyrir hakkara, því engin hefðbundin öryggisráðstöfun virkar gegn þessari tegund tölvuglæpa. Ein af fáum leiðum til að koma upp um svona glæpi er að hlusta af athygli á útvarpstæki og reyna að ráða í suðið.

Stikkorð: Heimilistæki  • Tölvuglæpir  • Hakkarar