*

Ferðalög & útivist 24. maí 2013

Gettótúrar í gegnum Bronx teknir af dagskrá

Ferðaskrifstofa sem auglýsti ferðir í gegnum fátækrahverfi sætti mikilli gagnrýni og hefur nú hætt við ferðirnar.

Ferðaskrifstofan Real Bronx Tours, sem bauð ferðamönnum upp á túra í gegnum alræmdustu fátækrahverfi Bronx í New York, hefur hætt við ferðirnar. 

Ferðskrifstofan auglýsti ferðirnar og kallaði þær „Ferð í gegnum alvörufátækrahverfi í New York“ eða „A ride through a real New York City ghetto“.

Ruben Diaz Jr., umdæmisstjórinn í Bronx, segir að slíkar ferðir mundu ala á fordómum fólks í garð hverfisins og gæfu þá mynd að þar væru bara eiturlyfjagengi á ferð. Ruben Diaz Jr. skrifaði opið bréf til Michael Myers, eiganda ferðskrifstofunnar, og hvatti fyrirtækið til að hætta að reyna að græða á ferð sem málar upp dökka mynd eymdar og fátæktar hverfisins. Hann segir ferðirnar smekklausar og móðgun við íbúa Bronx.

Þá hætti fyrirtækið með ferðirnar en Diaz fer þó enn fram á afsökunarbeiðni til íbúa Bronx frá ferðaskrifstofunni.

Vefsíðu ferðaskrifstofunnar er ekki lengur að finna á netinu en þó er ennþá auglýsing á vefsíðunni NewYorkPass.com sem selur miða á alls konar hluti sem tengjast ferðamannaiðnaðinum. CNN segir frá málinu á fréttasíðu sinni. 

Bronx hverfið er eitt af fimm umdæmum New York borgar en þar búa um 1,4 milljónir manna. 

 

Stikkorð: New York  • Bronx