*

Menning & listir 4. nóvember 2013

Ghostigital skrúfaði Richter-skalann í botn

Mikið var í boði fyrir tónleikaþyrsta geti á Iceland Airwaves á laugardag. Ghostigital, Sykur og FM Belfast báru af.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Fjórða kvöldið á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves á laugardag var þeysireið. Kvöldið byrjaði niðri í bæ á Amsterdam þar sem Saktmóðugi sem hristi eldhressu pönkinu í sína gömlu aðdáendurna sem flestir eru komnir nálægt miðjum aldri. Hljómsveitin var í fantaformi enda búin búin að hafa nægan tíma til að slípast til – ætli árin séu ekki orðin nokkuð fleiri en 20! Ég trúi ekki öðru en að nýir aðdáendur hafi bæst í hópinn um helgina.

Ghostigital var frábær

Richter-skalinn var skrúfaður talsvert hærra upp á alveg hreint frábærum tónleikum Ghostigital í Listasafni Íslands. Einar Örn Benediktsson var í fantaflottum gír. Þótt ég hafi ekkert út á andlit hans að gera þá tók hann sig vel út með silfurlitaða grímu í upphafi tónleikanna. Hljóðtruflanir af völdum sambandsleysis komu ekki að sök hjá Ghostigital. Einar talaði til áhorfenda og á meðan Curver og hjálparhellur tengdu herlegheitin upp á nýtt. Þegar sambandið komst á aftur hafði Einar haldið öllu gangandi. Upp úr spjallinu steig ægilega töff lag sem hélt áhorfendum við efnið allt þar til Einar lýsti því yfir að hann hefði fengið þau skilaboð frá almættinu að nú yrði bandið að slá botn í þetta. Engum blöðum er að fletta að tónleikar Ghostigital voru með því flottara sem í boði var á Iceland Airwaves.

Bandaríski tónlistarmaðurinn Mikki Blanco tók við af Ghostigital. Ég hafði ekki heyrt í honum áður en hann virkaði vel.

Ásgeir Trausti með nýtt lag?

Mikið var í gangi í Hörpu þegar þangað var komið. Pakkfullt var hjá Ásgeiri Trausta í Silfurbergi en þar flutti hann a.m.k. eitt nýtt lag.  Bandaríska hljómsveitin Midlake, sem spilaði undir hjá John Grant á plötunni Queen of Denmark, var í krúttlega rokkkantinum og þokkaleg sem slík þótt ekki hafi ég enst tónleikana á enda.

Í Norðurljósasal Hörpu tróðu svo upp bandaríska popphljómsveitin On an On og norska bandið Young Dreams. Poppið var þægilegt, skemmtilegt og borin fram á mjög fagmannlegan hátt. Ekki spillti spilagleðin hjá báðum hljómsveitum fyrir. Ég kannaðist ekki við breska raftónlistarmanninn John Hopkins sem tróð upp í Silfurbergi. Margir gerðu það hins vegar og höfðu sumir beðið spenntir eftir komu hans á Airwaves.

FM Belfast og Sykur fyrir stuðboltana

Íslenska bandið Sykur sem tróð upp á eftir Young Dreams í Norðurljósasalnum bar af. Hljómsveitin var hreint út sagt frábær, sérstaklega söngkonan Agnes Björt Andradóttir sem þeystist um sviðið og söng að því virtist af óstöðvandi krafti.

Það væri hreinlega lygi að reyna að halda því fram að FM Belfast sé leiðinleg hljómsveitin. Bandið tróð upp í Silfurbergi rétt fyrir klukkan hálf tvö aðfaranótt sunnudagsins og af þvílíkur krafti að stuðmælirinn í mér hrökk í gang og stóð í hæsta punkti til loka. Þvílíkt og annað eins.

Ég mæli eindregið með því fyrir þá sem vilja koma fýlupúkum í stuð að leita uppi tónleika Sykur og FM Belfast. Það einfaldlega getur ekki klikkað!

Jón Aðalsteinn er blaðamaður á Viðskiptablaðinu.

Stikkorð: Iceland Airwaves  • Sykur  • Ásgeir Trausti  • Ghostigital  • FM Belfast