*

Bílar 25. nóvember 2015

Gísli: Lögreglubíll fylgdi frítt á eftir

„Í gamla daga var frelsi að eiga hest og knörr en nú er frjáls maður sá sem á bíl.“

Gísli Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Bifreiða og landbúnaðarvéla, hefur haft mikinn bílaáhuga síðan í barnæsku. Mikið vatn hefur runnið til sjávar í bílabransanum frá því að innflutningur bíla frá Sovétríkjunum sálugu hófst á 6. áratugnum en segja má að viðskiptasaga Bifreiða og landbúnaðarvéla og samskipti fyrirtækisins við Ráðstjórnarríkin hafi yfir sér ævintýralegan blæ.

Gísli rifjar upp þá sögu í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem kemur út á morgun. Þar segir hann einnig frá eftirminnilegustu bílunum sem hann hefur átt og ekið. 

,,Ég fékk bílaáhugann snemma. Faðir minn, Guðmundur Gíslason, flutti inn fyrsta Porsche-bílinn á 6. áratugnum. Hann var af gerðinni Porsche 356. Mjög glæsilegur sportbíll, rauður með svartri blæju. Ég fékk stundum að aka honum en eitt sem fylgdi honum frítt var lögreglubíll á eftir,“ segir Gísli glottandi. Hann bætir við að fyrsti bíllinn sem hann eignaðist hafi verið Volga 21. ,,Þá hófst nú frelsið fyrir alvöru. Ég fór um allt á Volgunni. Það er nefnilega frelsi að eiga bíl. Í gamla daga var frelsi að eiga hest og knörr en nú er frjáls maður sá sem á bíl. Bíladellan er ekki bara einhver vitleysa heldur frelsi,“ segir Gísli og rifjar upp fleiri eftirminnilega bíla. 

Margir eftirminnilegir bílar

„Ég átti einu sinni Unimog ferðabíl. Það var termóstýrð bensínmiðstöð inni í honum og ef maður lenti í sandstormi tók maður bara upp litla málningarrúllu og málaði hann. Við hjónin fórum á honum út um allar trissur. Aðrir eftirminnilegir bílar sem ég á eru Lada Sport jeppi og Lada Safir fólksbíll. Ég á góðar minningar um Lödurnar þótt þetta hafi ekki verið neinir lúxusbílar. Tveir spennandi bílar sem ég hef átt eru Jaguar E týpa, árgerð 1973, og Rolls Royce sem er líka árgerð 1973. Hann er svartur og afar glæsilegur eðalbíll. Ég keypti hann í Kaliforníu árið 2012. Ég ók honum til Vancouver og þar fór hann í skip til Íslands. Rollsinn var brúðkaupsbíll í brúðkaupi dóttur minnar, Jóhönnu Margrétar Gísladóttur. Svo hef ég átt fleiri skemmtilega bíla eins og Ford Mustang sem ég er á núna," segir Gísli.

Meðal annars efnis í Bílar er reynsluakstur á nýjum Porsche 911 Carrera á Tenerife, viðtal við sjónvarpsmanninn góðkunna, Sigmund Erni Rúnarsson, sem heimsótti bílasafn milljarðamæring í Róm og fékk að aka Lamborghini um götur ítölsku höfuðborgarinnar. Landsliðsmenn Íslands í knattspyrnu segja frá draumabílnum þeirra og Hilmir Snær Guðnason leikari verður á forlátum Maserati í nýrri íslenskri kvikmynd.