*

Tölvur & tækni 3. október 2015

Gjörbreyttar aðstæður

Töluverðar breytingar hafa verið á rekstri Opinna kerfa á þeim þrjátíu árum sem það hefur starfað.

Kári Finnsson

Fyrir þrjátíu árum var síðan fyrirtækið Opin kerfi stofnað sem söluaðili fyrir Hewlett Packard vörur á Íslandi. Frá þeim tíma hefur starfsemin breyst töluvert en ofan á búnaðartengda sölu fyrirtækisins sér það um margvíslega þjónustu á fyrirtækjamarkaði. Til marks um þróunina er nú stærsti viðskiptavinur félagsins þýski bílaframleiðandinn BMW í gegnum gagnaversþjónustu þess. Þorsteinn Gunnarsson, forstjóri Opinna kerfa, tók við starfinu í júní síðastliðnum en hann hafði áður starfað sem forstjóri þess frá árinu 2006 til 2007. Að hans sögn er hægt að lýsa fyrirtækinu sem þjónustutengdum búnaðarsala en nú sé félagið að þokast meira í áttina að þjónustu.

„Í byrjun var það þjónusta tengd búnaðinum en núna erum við að fara yfir í alrekstur, skýjalausnir og þjónustu við gagnaver,“ segir Þorsteinn. „Það bætast alltaf fleiri og fleiri í þá flóru en í dag er okkar stærsti viðskiptavinur BMW í gegnum gangaversþjónustuna. Þeir leigja af okkur búnað og þjónustu fyrir háhraðatölvustarfsemi (e. High performance computing) sína. Yfir 50% af allri háhraðatölvustarfsemi hjá BMW er á Íslandi. Þetta hefur verið að aukast ár frá ári. Núna erum við að fara yfir í fjórða árið í þjónustu við BMW og þeir eru að flytja inn það sem hefur verið hýst og rekið í Þýskalandi til Íslands.

Stóra breytingin hjá Opnum kerfum er að við erum að einbeita okkur meira að þjónustu og rekstri og að því að flytja okkar viðskiptavini inn í skýið (e. Cloud computing). Við bjóðum upp á þjónustu þar sem fyrirtæki getur greitt fasta krónutölu á mánuði fyrir þá lausn sem hentar þeirra rekstrarumhverfi bæði búnað, skýjalausnir og annað tækjabúnað sem það þarf. Þetta er módel sem er að ryðja sér meira til rúms. Síðan eru það breytingar á upplýsingatæknimarkaðnum sem eru að knýja áfram breytingar á okkar við­ skiptamódeli. “

Nánar er rætt við Þorstein í fylgiritinu Tækni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: BMW  • gagnaver  • Opin kerfi  • Þorsteinn Gunnarsson