*

Bílar 22. mars 2019

Glænýr bíll frá Lexus

Á morgun kynnir Lexus í Garðabæ fyrstu kynslóð Lexus UX sportjeppans, sem er fyrsti bíll þeirra í stærðarflokknum.

Róbert Róbertsson

Glænýr Lexus UX 250h sportjeppi verður kynntur hjá Lexus í Kauptúni í Garðabæ á morgun klukkan 12-16. Þetta er fyrsta kynslóð þessa netta sportjeppa og í fyrsta sinn sem Lexus kynnir bíl í þessum stærðarflokki.

Hönnunin á þessum nýja bíl er djörf og kraftaleg og í anda þeirra hönnunarstefnu sem japanski lúxusbílaframleiðandinn hefur komið fram með í bílum sínum undanfarið. Lexus UX er búinn sprækri Hybridvél og fæst bæði framhjóla- og fjórhjóladrifinn. Vélin er tveggja lítra og skilar 178 hestöflum. Bíllinn er 8,5 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Eldsneytisnotkun í blönduðum akstri er frá 4,2 lítrum á hundraðið og koltvísýringslosunin er frá 102 g/km.

Sem fyrr hjá Lexus er það eftirtektarverð hönnun og vandað handverk sem einkennir þennan nýja bíl. Lexus UX 250h er búinn nýja Lexus Safety System + sem er heildstætt forvarnarkerfi og er meðal annars með greiningu á gangandi vegfarendum og hjólreiðafólki, LDA-akgreinaskynjara, sjálfvirku háljósakerfi, ratsjárstilli og umferðaskiltaaðstoð.

Stikkorð: Garðabær  • Lexus  • Kauptún  • sportjeppi