*

Bílar 2. nóvember 2015

Glænýr Porsche Macan GTS

Ný útgáfa sportjeppans frá bílaframleiðandanum þýska er litlar 5 sekúndur upp í hundraðið og 360 hestöfl.

Porsche kynnir nýja útgáfu sportjeppans Macan. Bíllinn skartar auknu vélarafli miðað við Macan S gerðina. Eins og margir aðrir bílar frá Porsche hefur hann fengið stafina GTS. 

Hinn nýi Macan GTS er með 7 gíra sjálfskiptingu og 3 lítra V6 bensínvél. Í vélinni eru tvær forþjöppur og þetta skilar alls 360 hestöflum. Það er rétt rúmlega 20 hestöflum meira en Macan S og 40 hestöflum minna en Macan Turbo. 

Sportjeppinn er einungis 5,0 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og gerir gott betur með Sport Chrono pakkanum -  þannig kemst hann upp á 4,8 sekúndum. 

Porsche hefur einnig betrumbætt fjöðrun bílsins og gert hana sportlegri. Macan GTS liggur lægra á veginum en bræður hans. 

Þá hefur ný gerð sportjeppans fengið nýtt pústkerfi og bremsubúnað, og á 20 tommu felgum lítur hann ansi vígalega út.

Stikkorð: Bílar  • Porsche  • Macan GTS