*

Tíska og hönnun 26. september 2017

Glæsileg haustlína Geysis

Síðastliðið föstudagskvöld frumsýndi Geysir haust- og vetrarlínu sína Skugga-Sveinn í gamla Héðinshúsinu í Reykjavík. Margt var um manninn og óhætt er að segja að áhorfendur hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum þar sem línan er hin glæsilegasta.

Skugga-Sveinn er fjórða lína Ernu Einarsdóttur fyrir Geysi en Erna er yfirhönnuður Geysis. Hún nam við Gerrit Rietveld Akademíuna í Amsterdam og Central Saint Martins í London

Fatnaðurinn er innblásinn af íslensku konunni og hennar hversdagslífi í borginni, með sterkum vísunum í íslenskan lista- og menningarheim. Um svokallaða "see now, buy now" sýningu var að ræða þar sem allur fatnaðurinn á sýningunni var komin í verslanir Geysis um allt land strax daginn eftir. 

Geysir hefur síðastliðin ár haslað sér völl sem ein fremsta tískuvörufyrirtækið á Íslandi. Ásamt eigin hönnun býður Geysir upp á vörumerki á borð við A.P.C., Ami, Stine Goya, Ganni, Henrik Vibskov, Gosha Rubchinskiy, Wood Wood, Hope, Soulland, Carven, Veja, Hanro, Carla Colour og Harmony í verslunum sínum. 

 Haustherferðin sækir nafn sitt í hið þekkta leikverk Skugga-Svein með skírskotun í  leiktjöld sem máluð voru af Sigurði málara Guðmundssyni fyrir fyrstu uppsetningu verksins árið 1862.