*

Bílar 6. nóvember 2016

Glæsilegir gullmolar

Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kemi og fyrrverandi forstjóri N1, er mikill bílaáhugamaður og hefur átt á annað hundrað bíla.

Róbert Róbertsson

Bíladellan byrjaði snemma hjá mér. Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist var Hillmann Hunter 1968 árgerð. Þetta var ágætur bíll en ekki mikill sportbragur á honum sem varð til þess að ég skipti yfir í Ford Mustang 1966 árgerð sem var 6 sílindra og beinskiptur. Það var mikið brallað á þeim bíl og mikið um óskynsamlegan akstur. Síðar kom tímabil þar sem ég reyndi mikið fyrir mér í bílabraski og keypti og seldi bíla í hverri viku. Á endanum sat maður uppi með háar fjárhæðir af ógreiddum víxlum frá fjárvana mönnum. Þetta varð því heilmikið tap á endanum,” segir Hermann.

,,Það sem er hvað eftirminnilegast frá þessum árum voru ferðirnar sem farnar voru á sveitaböllinn í kringum borgina. Ég og Árni vinur minn fórum snemma að mæta og þá oft á Buick bíl sem hann átti og hentaði sérlega vel til svona ferðalaga. Þetta var gullöld hinna bandarísku dreka,“ segir hann og brosir.

Mercury Cougar tekinn í gegn frá grunni

Hermann eignaðist glæsilegan Mercury Cougar XR7, árgerð 1969, árið 2006. ,,Ég flutti bílinn inn frá Bandaríkjunum og byrjaði strax að láta vinna í honum. Hann var rifinn alveg niður að grind og tekinn í gegn frá grunni. Það var hreinsað allt ryð úr honum og farið yfir boddíið. Skipt um alla slitfleti, fjöðrunina og bremsurnar. Vélin var tekin úr honum og farið alveg yfir hana og hún raunar endurbyggð. Bjarni Finnbogason og Valur Vífilsson sáu um allar vélaviðgerðir á bílnum og allt kramið. Þeir gerðu það af sinni alkunnu snilld. Bíllinn var málaður hjá Bílastjörnunni og sú vinna tók um eitt ár. Þetta er að margra áliti besta málningarvinna sem sést hefur á gömlum bíl. Allt króm var málað svart. Bíllinn er einstakur að því leyti að það er ekkert króm á honum,” segir Hermann. Þetta er líka eina eintakið af þessari árgerð á götunni eftir því sem best er vitað.

Eini bíllinn sinnar tegundar á Ísland

Hermann sérpantaði felgur á bílinn frá Boyd Coddington, hinum heimsþekkta eiganda Hot Rod Shop, en hann smíðaði marga fræga bíla. ,,Ég er gríðarlega ánægður með hvernig hefur tekist til. Þetta er sérlega fallegur bíll og mjög sérstakur. Þetta er eini bíllinn sinnar tegundar hér á landi. Ég er mjög stoltur af því hvernig til hefur tekist. Ég keyri hann talsvert mikið á vorin og sumrin og er enn á honum núna en mun leggja honum fljótlega yfir veturinn. Það þýðir ekkert annað en að keyra þessa gömlu bíla því ef þeir standa meira og minna óhreyfðir þá fara þeir að gefa eftir, leka olíu o.fl. Bíllinn er mjög skemmtilegur í akstri. Hann er með Windsor 351 vél undir húddinu sem skilar 225 hestöflum,“ segir Hermann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Hermann