*

Tíska og hönnun 13. október 2017

Glæsileiki gullára Hollywood

Innanhúsarkitektinn Hanna Stína er þekkt fyrir að horfa út fyrir kassann þegar kemur að lita- og efnisvali.

Kolbrún P. Helgadóttir

Hún er alls óhrædd þegar kemur að litum og formum en kann þó vel við klassíkina og leggur mikið upp úr vönduðu efnisvali sem hún segir skipta höfuðmáli þegar vel skal að verki staðið. Hanna er nýkomin heim frá París þar sem hún tók púlsinn á því heitasta í heimi hönnunar í dag á sýningunni Maison&Objet. Okkur lék forvitni á að vita hvað það er sem er heitast í dag; hvaða litir muni ráða ríkjum og hvert stefnan er tekin

Þetta var æðisleg sýning, segir Hanna og bætir við að París sé ein af sínum uppá- halds-borgum. Það eru töluverðar áherslubreytingar í gangi. „Industrial“-stíllinn sem hefur verið svo vinsæll með grófum frágangi, ómeðhöndluðum við og þessum „rustic“-grófleika er alveg farinn út. Þess í stað er meiri glæsileiki í gangi, dálítið eins og einkenndi Hollywood hér áður. Það er ofsalega mikið af litum í gangi þannig að hvítir, svartir og gráir sófar eru formlega á leiðinni út,“ segir hún og við leyfum okkur að fullyrða að það séu sláandi fréttir fyrir marga enda flest sófasett hér á landi í þeim litum. Það þarf þó ekkert að örvænta að hennar sögn því hún bendir á að klassíkin haldi alltaf velli. „Það var gaman að sjá litina og þá sérstaklega hvað antik bleiki liturinn heldur velli og raunar öll bleika lita pallettan ef út í það er farið. Mintugrænn kemur líka rosalega sterkur inn á næstunni og eiginlega bara allir grænir litir. Það má því réttilega segja að græni sé hinn nýi grái. Flauelið heldur áfram sem og mikil smáatriði í húsgögnum. Mikið um bólstrun, snúrur og skúfar. Bólstraðir hnappar og fleira í þeim dúr. Allt mjög glæsilegt,“ bætir hún við. Hanna Stína segir spegla sjást út um allt núna og verða enn meira áberandi en áður sem og alls konar gler. „Hamrað gler er til dæmis áberandi og sést víða. Stórar ljósakrónur eru líka mjög sterkar; því stærri því betri.“

Koparinn hvíldur

Málmar hafa verið vinsælir og eru það áfram. Brassið er sérstaklega vinsælt. Er allsráðandi ef svo má að orði komast. Koparinn er hins vegar alveg horfinn af sjónarsviðinu í bili að sögn Hönnu Stínu.Það sem mér fannst líka áberandi voru dýra- og náttúrumynstur í alls kyns útfærslum. Svo má ekki gleyma veggfóðrinu sem er alltaf sterkt. Það ber þó meira á upphleyptum mynstrum og áferðum en oft áður. Falleg veggfóður gera ótrúlega mikið fyrir rými en ég hef alltaf notað þau mikið. Hvað viðkemur gólfefnum er parketið alltaf vinsælast og þá ekki síst stórir plankar. Gólf eru mjög dökk þessi misserin, hnota og reykt eik áberandi. Ekki má heldur gleyma mottum en lúxus mottur eru sérlega áberandi, stórar og veglegar.“ Spurð um eldhús sagði hún að dökki liturinn yrði enn ráðandi þar og svo marmarinn. „Marmarinn er allstaðar, í öllum litum, stærðum og gerðum. Marmarinn er málið,“ segir hún og brosir.

Japönsk litapalletta

Hanna Stína segir þetta mjög spennandi tíma í faginu. „Þetta eru efni og litir sem ég er rosalega hrifin af. Má eiginlega segja að þarna sé „Old-Hollywood“ að mæta „Art Deco“ að einhverju leyti. Efniviðurinn er frábær og einnig þessi lita palletta. En um er að ræða bleikan, mintu og svo er mikið um rauð- an. Dálítið japanskt ef ég á að draga þetta saman í eitt lýsingarorð.“ Sjálf er Hanna Stína með vinnustofu og sýningarrými í Auð- brekku 10 þar sem hún er meðal annars með húsgögn frá breska fyrirtækinu Alter London. „Þetta eru húsgögn sem ég er rosalega ánægð með og ég nota mikið en þau eru sérpöntuð fyrir hvert og eitt verkefni. Það er nauð- synlegt að geta boðið fólki upp á þennan möguleika en Alter London er þekkt fyrir mjög vandaða vöru og alltaf gaman að geta boðið upp á húsgögn sem eru nánast klæðskerasniðin fyrir hvern og einn.“ 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hanna Stína segir spennandi tíma framundan.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjá nánar í nýjasta tölublaði Eftir vinnu: http://www.vb.is/tolublod/files/1681/