*

Veiði 29. júlí 2012

Glæsileiki við árbakkann

Klæðnaður er ekki efst í huga stangaveiðimanna, en vel klæddur kastari lyftir veiðinni samt á hærra plan.

Mörgum kynni að þykja það óttalegt pjatt að huga að klæðnaði við veiðar, jafnvel spjátrungsháttur. Þeir um það. Hins vegar mega þeir, sem tala mest um fallegt kast, ævintýralega töku og faglega löndun, ekki gleyma heildarmyndinni. Það þarf ekki annað en góða skyrtu úr þykku bómullarefni innanundir vöðlur – ekki skemmir fallegt bindi með – til að lyfta þessari stórkostlegu upplifun á hærra plan.

Alltaf er verið að vara veiðimenn við því að vaða út í miðjan hylinn og byrja að kasta þar. Oftar en ekki nægir að vera í klofstígvélum við veiðar. Slíkur útbúnaður gefur fólki tækifæri til að klæða sig sérstaklega smekklega við veiðar. Þá skemmir ekki að vera í þykkum hnébuxum við, í skyrtu með bindi, jafnvel vesti og sixpensara á höfði. Þegar fer að blása má klæða sig í Tweed-jakkann við. Sé fatnaðurinn gerður úr góðri ull er ekki hætta á að fólk ofkæli sig við krefjandi aðstæður.

Stikkorð: Veiði  • Veiðifatnaður