*

Hitt og þetta 15. september 2006

Glitnir semur við Skýrr um viðskiptagreind

Glitnir hefur samið við Skýrr hf. um kaup og innleiðingu á viðskiptagreindarlausnum frá Business Objects vegna gagnavinnslu, greiningu gagna og framreiðslu á lykilupplýsingum fyrir stjórnendur bankans. Samningurinn tekur til innleiðingar á kerfum, þjálfunar á notendum og almennrar ráðgjafar á sviði viðskiptagreindar, segir í tilkynningu frá Skýrr.

"Glitnir er framsækið fjármálafyrirtæki í upplýsingatækni og gerir miklar kröfur til samstarfsaðila sinna. Við teljum þennan samning ákveðinn gæðastimpil á vörur og þjónustu Skýrr. Við höfum undanfarin misseri byggt upp öflugan ráðgjafarhóp á sviði viðskiptagreindar og lausnir frá Business Objects spila þar mikilvægt hlutverk," segir Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr, í tilkynningunni.

"Lausnir frá Business Objects fá nú sess meðal kjarnakerfa í upplýsingatækniumhverfi Glitnis. Hugbúnaður á sviði viðskiptagreindar miðar að því að umbreyta gögnum í upplýsingar og upplýsingum í þekkingu. Í þessu ferli felst að auka gæði í úrvinnslu, greiningu og dreifingu réttra upplýsinga á réttum tíma til fólks sem starfar við ákvarðanatöku," segir Páll Kolka Ísberg, hjá Glitni, í tilkynningunni.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is