*

Menning & listir 20. nóvember 2013

Glys og glamúr fyrir jólin

Fatahönnuðurinn Andrea Magnúsdóttir í versluninni Andrea segir kjóla og samfestinga verða ráðandi um jólin.

Edda Hermannsdóttir

Kjólar og samfestingar munu einkenna verslunina Andreu fyrir jólin og nóg verður af glys og glamúr. Þetta segir fatahönnuðurinn og eigandinn Andrea Magnúsdóttir.

„Kjólarnir verða annars vegar aðsniðnir og kvenlegir og hinsvegar pínu víðir og rokkaðir. Samfestingarnir eru pínu 70´s og við erum ótrúlega spenntar yfir þeim. Um jólin erum við alltaf pínu „glamorous“. Við erum allar til í smá pallíettur en það fylgir þessum árstíma. Við hjá Andreu erum líka alltaf með mikið af litum og printum og okkar konur eru allt til í það þó svo svart fylgi okkur alltaf líka,“ segir hún.

Andrea segir íslenskar konur vera óhræddar við liti og stóra fylgihluti. Margir eru skipulagðir í ár og þegar farnir að kaupa jólagjafir að sögn Andreu. „Eiginmenn eru rosalega duglegir að koma til okkar. Þeir virðast vera með allt á hreinu og vita alveg hvað er á óskalistanum hjá sínum heitt elskuðu. Þetta er uppáhaldstíminn okkar og ekki leiðinlegt að aðstoða þessa herramenn,“ segir Andrea í versluninni Andreu.

Enginn vill lenda í jólakettinum og því er desembermánuður ansi líflegur í fataverslunum. Nánar er fjallað um fatavalið um jólin í Jólagjafahandbókinni sem fylgir Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð.