*

Matur og vín 20. júní 2015

Gnocchi með grænkáli vinsælast

Á Kolabrautinni er hefðbundin ítölsk matargerðarlist færð í nýjan búning þar sem ferskt úrvalshráefni er í fyrirrúmi.

„Við erum að færa okkur enn meira inn í ítalska matargerð af gamla skólanum – við notum hefðbundnar aðferðir en með okkar 21. aldar útfærslu. Og vínseðillinn er að sjálfsögðu ítalskur eins og hann leggur sig,“ segir Alba E. H. Hough, veitingastjóri og vínþjónn á Kolabrautinni sem er á 4. hæð Hörpu með glæsilegu útsýni yfir miðborgina og sundin blá.

„Okkar stefna er að nota eins mikið af fersku og árstíðabundnu hráefni og hægt er – íslenskt eða ítalskt eftir föngum. Við ræktum til dæmis ekki ólífur hérlendis en ferðumst þá út og verslum beint við ítalska bændur. Við eigum í persónulegu sambandi við fjölda framleiðenda þar í landi; Leifur framkvæmdastjóri er með annan fótinn á Ítalíu og er orðinn heimavanur.

Við ræktum einnig tengslin við íslenska bændur og fáum úrvals ferskmeti frá þeim. Við bætum því iðulega sérréttum við okkar hefðbundna matseðil. Þá fær sköpunargleði kokkanna að njóta sín.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.