*

Ferðalög & útivist 17. maí 2012

Góðar móttökur í Denver – myndir

Icelandair hóf í síðustu viku beint flug til Denver en flogið verður fjórum sinnum í viku allan ársins hring. Viðskiptablaðið var með í för.

Gísli Freyr Valdórsson

 

Icelandair hóf sl. fimmtudag beint flug til Denver í Colarado. Flogið verður fjórum sinnum í viku allan ársins hring og samkvæmt upplýsingum frá félaginu fara bókanir í flugið vel af stað. 

Blaðamaður Viðskiptablaðsins var með í jómfrúarflugi félagsins ásamt fjölda annarra gesta og fjölmiðla. Ferðamálayfirvöld í Denver höfðu undirbúið flugið og komu gestanna vel og útbúið dagskrá yfir helgina sem meðal annars fól í sér morgunverðarfund með ríkisstjóra Colarado, útsýnisferð um Denver og nærliggjandi skíðasvæði, tónleika með hljómsveitinni The Fray og fjölda annarra viðburða.

Ekki var annað að heyra en að stjórnvöld og hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu þar í borg væru hæstánægð með hina nýju flugleið, en hingað til hafa aðeins tvö félög flogið beint frá Denver til Evrópu. 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr ferðinni:

Boeing 757-200 vél Icelandair fær veglegar móttökur hjá slökkviliðinu á flugvellinum í Denver eftir jómfrúarflug til borgarinnar þann 10. maí 2012.

Boeing 757-200 vél Icelandair fær veglegar móttökur hjá slökkviliðinu á flugvellinum í Denver eftir jómfrúarflug til borgarinnar þann 10. maí 2012.

Vélin komin í stæði á flugvellinum í Denver.

Vélin komin í stæði á flugvellinum í Denver.

Michael Hancock, borgarstjóri Denver.

Michael Hancock, borgarstjóri Denver, ávarpaði farþega í jómfrúarfluginu. Hann hafði ásamt fylgdarliði dvalið á Íslandi í nokkra daga á undan og meðal annars heimsótt Akureyri þar sem undirritaður var vinabæjarsamningur.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, ávarpar gesti á flugvellinum í Denver.

Hugrún Halldórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2.

Hugrún Halldórsdóttir, fréttamaður á Stöð 2, ræðir við Steingrím J. Sigfússon, sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra, á flugvellinum í Denver eftir jómfrúarflugið.

Björn Thoroddsen, tónlistarmaður og gítarsnillingur.

Það fór vel á með þeim Birni Thoroddsen gítarsnillingi og Birki Hólm Guðnasyni eftir flugið. Björn tók þátt í Íslandskynningu á flugvellinum en þegar það fréttist að hann myndi spila í Denver var hann bókaður alla helgina.

Við Red Rocks tónleikasviðið í Denver Colarado.

Við Red Rocks tónleikasviðið í Denver Colarado. Þar fóru fram tónleikar með hljómsveitinni The Fray (sem er upphaflega frá Denver). Tónleikasviðið er vel þekkt en þar hafa bæði Björk og Sigurrós komið fram. Til gamans má geta þess að árið 1984 hóf írska hljómsveitin U2 eitt frægasta tónleikaferðalag sitt, Under a Blood Red Sky, á sama sviði. Þegar hópinn bar að garði á laugardagsmorgni var fjöldi fólks að gera Boot Camp æfingar á svæðinu, eða stunda hernaðarbrölt að mati Sóleyjar Tómasdóttur.

Hilmar B. Baldursson, flugrekstrarstjóri og flugstjóri hjá Icelandair.

Hilmar B. Baldursson, flugrekstrarstjóri og flugstjóri hjá Icelandair, stýrir Boeing 757-200 vél félagsins í aðflugi á Keflavíkurflugvelli komandi frá Denver að morgni 14. maí 2012.